Ég hef lítið með fylgst með raunveruleikaþættinum Survivor undanfarin ár en ég hafði mjög gaman af þessum þáttum á sínum tíma. Fyrr í kvöld datt ég svo inn á lokaþáttinn í nýjustu seríunni sem sýndur er á Skjá Einum.
Það rann upp fyrir mér ljós á meðan ég var að horfa á þetta, kviðdóminn og þá sem voru komnir í úrslit og orðaskiptin þarna á milli, að þessi þáttur gerir út á að sýna fólk vera bæði dónalegt og vont við annað fólk.
Reyndar má segja það sama um fréttaskýringarþættina Kastljós og Ísland í dag frá því fyrr í kvöld og síðustu kvöld. Þeir hafa verið á svipuðum nótum og uppgjörið í lokaþætti Survivor.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2007
Færri að spá í fánadögum?
Það var fánadagur á mánudaginn síðasta en þá átti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, afmæli.
Veit ekki hvort það var bara ég en mér fannst ég ekki verða var við að fólk væri mikið að flagga.
Reyndar sá ég að Þórarin Eldjárn, rithöfundur og sonur eins fyrrum forseta okkar, klikkaði ekki á þessu.
Kannski var ég bara á ferð á vitlausum stöðum í borginni eða þá að þessi hefð er hægt og hægt að hverfa. Svo er kannski eitthvað minna um að fólk sé með fánastangir í garðinum hjá sér. Það fær frekar útrás fyrir þjóðerniskenndina í tengslum við Júróvisjón.
18.5.2007
Frjálslynd umbótastjórn
Er einmitt það sem við þörfnumst held ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007
Áherslur nýs sjónvarpsstjóra Skjás Eins
Ég tók eftir því að talskona Feminístafélagsins er búin að sækja um sjónvarpsstjóradjobbið á Skjá einum.
Ég sé ekki annað en að hún eigi góða möguleika á að fá starfið með þessa úrvals menntun og þann ágæta skilning á fjölmiðlaumhverfinu sem hún virðist búa yfir, sé miðað við alla athyglina sem Femínistafélagið hefur fengið í fjölmiðlum undanfarin ár.
En Skjár Einn hefur reyndar ekki verið alveg til fyrirmyndar þegar kemur að baráttunni gegn staðalímyndum, a.m.k. ekki á mælikvarða Feminístafélagsins og því er soldið fyndið að spá í hvaða þáttum verði fyrst fleygt út úr dagskránni eftir ráðningu talskonunnar á Skjáinn?
- Americas Next Top model: Staðalímyndaaðvörun!!! M.a.s. kallarnir eru konur í þessum þætti
- How Clean is Your House: Tvær kellingar þrífa ógeðsleg hús. Fléttulisti eða út!
- Wife Swap: Staðalímyndir af húsmæðrum - tvöföld skömm!
- Beinar útsendingar frá fegurðarsamkeppnum: Hnakkar þessa lands - so sorry!
- Sex Inspectors: Bera falsvitni um þörf kvenna fyrir forleik umfram karla - aldrei meir!
- The Bachelor: Mýtan um konur sem giftast til fjár fest í sessi - svei!
- The Swan: Þessi hlýtur að hverfa, hver sem verður sjónvarpsstjóri - ojj!
Sjálfsagt myndu fleiri þættir fá að fjúka en hvað ætli kæmi í staðinn? Hugmyndir?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2007
Taktík
Ég gerði góð kaup á uppboði lögreglunnar fyrir nokkrum árum. Fékk lítið notað fjallahjól sem kostað hefði nýtt um 50 þúsund á aðeins 12 þúsund kall.
Fyrir þá sem lesa þetta og ætla að ná í lokin á reiðhjólauppboðinu: Ekki hafa áhyggjur af því að koma of seint. Það myndast nett múgæsing í byrjun uppboðsins og fólk sem er hrætt við að fara heim tómhent býður allt of hátt í fyrstu hjólin.
Þegar ég var þarna um árið þá voru þeir sem voru þolinmóðir að fá miklu betri hjól og fyrir minna verð en þeir sem buðu 30.000 í fyrsta ryðgaða hjólhestinn sem boðinn var upp.
Ég er nettur skransali í mér, því miður. Mig dauðlangar á uppboðið sem verður í haust á öðrum óskilamunum í vörslu lögreglunnar. Þar ætti að leynast sitthvað forvitnilegt.
AJ.
![]() |
Mikil stemning á reiðhjólauppboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2007
Misheppnað vörumerki íslensks banka
Nýtt lógó Sparisjóðabankans gamla þykir með eindæmum ljótt. Um þetta eru fjöldi auglýsingamanna sammála.
Í hönnunargeiranum þykir ekki gott að fara á það sem kallað er "fontafyllerí" en viðleitni Icebank-manna til að koma fjögurra laufa smáranum fyrir í nýja lógóinu hefur leitt til þess að þetta sjö stafa orð virðist vera stafað með að minnsta kosti fjórum mismunandi fontum. Útkoman verður afar klúðursleg.
Sama má reyndar segja um þetta myndband sem hægt er að horfa á á vef bankans. Ekki beint það ferskasta í bransanum.
Jón Agnar Ólasson bloggar hér á Moggablogginu og hann bendir í dag á enn einn gallann við þessa umbreytingu Sparisjóðabankans og aukna áherslu hans á alþjóðleg viðskipti.
Hlustið bara á orðanna hljóðan: "Good morning, Icebank!"
Auglýsingar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.4.2007
Flokksystur/tvífarar dagsins


Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Borgin hefur keypt hús við Njálsgötu 74 og hyggst veita þar heimilislausu fólki húsaskjól. Stór hluti íbúanna í húsinu verður því væntanlega fólk sem er réttnefnt rónar og útigangsmenn.
Það vill svo til að sjálfur bý ég á Njálsgötu. Er nýfluttur hingað. Mér dettur samt ekki í hug að skrifa undir neinn lista sem bannar borginni að hýsa heimilislaust fólk í þessari götu.
Þó ég skilji það sjónarmið að það geti verið hvimleitt á stundum að vera í miklu návígi við göturóna þá er það bara eins og hvað annað sem mætir manni í miðborginni. Verslunareigendur í Kvosinni, vestan Lækjargötu, þekkja "rónavandamálið" sem hefur verið viðvarandi þar. En lausnin er ekki sú að finna þessu fólki stað þar sem við þurfum ekki að horfa upp á það. Ég er feginn að borgin er að sinna þessu fólki, bæði í líknar- og mannúðarskyni sem og í því skyni að aðstoða það með þá krankleika, drykkjusýki eða aðra andlega sjúkdóma, sem það hrjáist af.
Nágranni minn (reyndar bý ég töluvert ofar í götunni en hann) Pétur Gautur tjáði sig um þetta mál í Fréttablaðinu á fimmtudag og sagði meðal annars:
Auðvitað þarf þetta fólk að vera einhvers staðar en þarf það endilega að vera við hliðina á mér? Ég hef áhyggjur af því að fasteignin mín sé að falla í verði með þetta fólk þarna. Við viljum að þarna séu venjulegar fjölskyldur eins og skipulagið gefur til kynna og að þetta fari í grenndarkynningu svo við getum sagt það sem okkur finnst. Það er mikill hugur í fólki hér að þetta verði aldrei,"
Ég held að Pétur verði að átta sig á því að hann býr í miðborg Reykjavíkur. Miðborgin er ekki sérstakt fjölskylduhverfi. Hér búa vissulega fjölskyldur en líka alls konar fólk. Hér ægir saman erlendum verkamönnum, einstæðingum, túristum, gömlum sérvitringum, ungu skóla- og listafólki, miklu af leiguíbúðum o.s.frv. Og hér í götunni, hef ég tekið eftir, eru jafnan ýmsir kynlegir kvistir á ferð, bæði rónar og annað fólk.
Þetta er m.a. ein ástæða þess að mér finnst gott að búa hérna. Maður finnur fyrir umhverfinu. Nábýlið er slíkt að ég horfi beint inn í eldhús, svefnherbergi, bað og stofu hjá nágrönnum mínum allt eftir því við hvaða glugga ég stend. Skrautleg bakhús og innréttaðir bílskúrar setja svip sinn á hverfið. Allt finnst mér þetta mun skemmtilegra borgarskipulag heldur en raðirnar af blokkum sem má finna í Grafarholti, Norðlingaholti og í raun hvaða nýja hverfi sem byggt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin áratug. Hér finnst mér ég vera hluti af samfélagi.
En kannski er þetta óumflýjanleg þróun? Þingholtinn og Gamli Vesturbærinn verði innan fárra ára orðin hreinsuð hverfi vel stæðra fjölskyldna sem breyta görðunum og rífa bakhúsin til að koma fyrir innkeyrslum fyrir lúxusbílana sína? Vilja sem minnst af nágrönnum sínum vita og stíga bara upp bílana sína og keyra í burtu. Sækja ekki hverfisbúðina Kjötborg eða Drekann og sjást bara eiginlega aldrei.
Kannski er það bara afleiðing af velsældinni og þróun fasteignaverðs að fjölbreytt samfélagið sem þrifist hefur í þessum miðborgarhverfum víki fyrir kapítalískri nauðsyn og finni sér stað einhvers staðar annars staðar þar sem fermetraverðið er enn sómasamlegt og hægt að vera í friði fyrir góðborgurum.
AJ.
P.s. Foreldrar mínir búa á horninu á Oddagötu í Vatnsmýrinni. Þar hinum megin við götuna er ekkert nema móar og mýri. Fyrir nokkrum árum var tilkynnt um að skipuleggja ætti vísinda- og tæknigarða þarna á þessu svæði. Íbúarnir í götunni ruku upp og gengu í hús með undirskriftalista og nefndu útsýni sem væri í hættu og, gott ef ekki var, fasteignaverðið líka.
Foreldrar mínir voru þau einu í götunni sem neituðu að skrifa undir. Móðir mín sagði við fólkið með undirskriftarlistann "Ég hef valið að búa í borg og í ljósi þeirrar ákvörðunar minnar finnst mér að mér sé ekki stætt á því að gera kröfu um að engu í umhverfinu verði breytt og að stór svæði standi óbyggð um aldur og ævi. Það er bara partur af því að búa í borg."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.4.2007
Hvar eru þeir nú?
Þessi frétt fékk mig til að hugsa til míns gamla vinar Adrian King. Við vorum skiptinemar sama ár í Indónesíu og hann heimsótti mig hingað og kíkti á Airwaves fyrir nokkrum árum. Ég hef líka kíkt á hann til Lundúna 1-2 sinnum og þegar ég hef átt leið þar um.
Adrian er Bandaríkjamaður en hefur sjálfsagt búið þar minni part ævi sinnar. Pabbi hans var í hernum og var staðsettur í þýskri herstöð. Móðir Adrians er einmitt þýsk. Adrian kaus að fara í nám í LSE stuttu eftir að við snerum heim frá Indónesíu og eftir að hann útskrifaðist (21 árs minnir mig) þá var fyrsta starfið sem hann fékk einmitt hjá Commerzbank sem FL Group er nú að kaupa í.
Nánar tiltekið þá starfaði hann hjá útibúi Venture Capital deildar bankans í Lundúnum. Lýsingarnar á samstarfsmönnunum voru þannig að maður fékk á tilfinninguna að þetta væru hálfgerðir kúrekar - svona einhver blanda af karakterunum úr Wall Street með Michael Douglas og Boiler Room með Vin Diesel.
En Adrian tolldi ekki lengi við hjá Commerzbank. Frá árinu 2002 hefur hann rekið ásamt félaga sínum umtalaðan boxklúbb fyrir verðbréfagutta og forstjóra sem kallast "The Real Fight Club" Klúbburinn stendur fyrir gala-kvöldum og box-keppnum milli venjulegra manna sem skora hvorn annan á hólm (kannski vegna deilna um yfirtökur á króatískum lyfjafyrirtækjum eða bara einhverju öðru). Þeir hafa skipulagt slíkar keppnir um allan heim og Adrian er á heimavelli í þessu held ég. Umgjörðin á þessum klúbb er ekki ósvipuð Gumball kappakstrinum sem íslenskir milljónaforstjórar hafa verið kenndir við. En reyndar er sá munur á að hagnaðinum af boxkeppnunum er varið til góðgerðarmála og er upphæðin sem Adrian og félagi hans Alan Lacey hafa gefið komin hátt í 200 milljónir kr.
Mér varð um daginn líka hugsað til fyrrum meðleigjanda Adrians Kings í Lundúnum og annars vinar okkar frá því í Indónesíu. Það er Dani að nafni Bo Pedersen. Heimabær Bo's er hin fræga Hróarskelda (Roskilde). Bo var jafn fljótur og Adrian að koma sér áfram í viðskiptalífinu og fór eftir viðskiptafræðinám að vinna sem sölumaður fyrir danskan viðskiptahugbúnað. Eftir einhverjar sameiningar og skynsamlega samninga um stock-option plan þá var Bo orðinn, aðeins 24 ára, hvorki meira né minna en sölustjóri Navision á Bretlandseyjum. Og þegar Microsoft kom síðan og keypti Navision með húð og hári þá græddi Bo nógan pening til að geta sponsað einn og óstuddur stóran hluta af Hróarskeldu hátíðinni og lifað þægilegu lífi það sem eftir er.
Mér var hugsað til Bo þegar að Doug Burgum ,sem leiddi einmitt áðurnefnda yfirtöku á Navision fyrir Microsoft á sínum tíma, kom og hélt fyrirlestur í skólanum mínum um daginn.
Bo er einhver alskemmtilegasti maður sem ég veit um til að fara með á gott fyllerí.
Það er orðið langt síðan ég hef heyrt í þessum tveimur herramönnum. Hvar ætli þeir séu nú?
AJ.
![]() |
FL Group kaupir hlut í Commerzbank fyrir 63,5 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2007
"Víkverji" fyrsti nafnlausi bloggarinn?
Það er ágætt framtak hjá Mogganum að birta nafnlaus leiðara- og staksteinaskrif sín hérna á blogginu (reyndar er blaðið í dag, laugardag, ekki komið inn ennþá).
Þarna vantar hins vegar enn gárunginn og gremjuboltann Víkverja sem allir lesendur Morgunblaðsins þekkja.
Segja má að þar sé skarð fyrir skildi því sjálfsagt myndu margir vilja leggja orð í belg á nafnlausri bloggsíðu Víkverja (zetu-notkun og kommusetning Víkverja dagsins bendir reyndar til þess að þar haldi á penna sami maður og almennt er talinn höfundur mestallra nafnlausra skrifa í Morgunblaðið. Ég kýs að svo stöddu að kalla hann aðeins "ónefnda manninn").
En semsagt...
Víkverji dagsins eyðir pistli sínum í að dásama N1-auglýsingarherferðina. Hefur hann uppi stór orð um hversu mikil tímamót herferð þessi marki. Hér að neðan má lesa smá brot úr þessum skrifum:
Víkverji 21.04.07:
Auglýsingar N1 hafa vakið mikla athygli. Þær eru óvenjulegar og eru til marks um mikla hugmyndaauðgi og sköpunarkraft.
En sennilega hafa þeir, sem hafa skapað þessa auglýsingaherferð N1, lagt drög að nýjum tímum í markaðsmálum fyrirtækja á Íslandi.
Líklegt má telja, að þessi auglýsingaherferð verði viðmið, sem margir munu bera sig saman við á næstu árum.
Hvað það er, sem er svona stórbrotið við þessa markaðsherferð, finnst mér ekki liggja í augum uppi og Víkverji rökstyður það ekki svo heitið geti í pistli sínum. Nema honum finnist nafnabreyting í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar vera svona hrikalega frumleg aðgerð.
Sjónvarpauglýsingin fyrir N1 er svo sem ágæt fyrir sinn hatt en hún er nákvæmlega ekkert frumleg. Má í raun segja að hún sé bara nákvæmlega eins og margar aðrar dýrar sjónvarpsauglýsingar sem íslensk stórfyrirtæki hafa látið framleiða undanfarin ár: Sýnt er svipsterkt fólk í mismunandi starfstéttum og aðstæðum í ólíkum slowmotion myndskeiðum sem tengd eru saman með peppmúsík og einhverju lita eða hreyfingarþema. Ekki frumlegt en ekkert leiðinlegt heldur.
Kitl-herferðin hjá Esso/N1, sem m.a. fólst í daglegri niðurtalningu á strætóskýlum, missti hins vegar að mínu mati algjörlega marks þar sem að allir vissu að það væri að koma nýtt nafn á fyrirtækið um leið og RÚV skýrði frá því nokkrum dögum áður.
Því kveikti það litla forvitni hjá manni þó að her manna væri í því að endurveggfóðra strætóskýli borgarinnar daglega um nokkurra daga skeið. Maður vissi hvað væri að koma. Reyndar var í útvarpsfréttum talað um Naust en á endanum var það N1 (geisp).
Við þetta er svo að bæta að Víkverji er náttúrulega hinn upprunalegi nafnlausi bloggari og það er óneitanlega skrýtið að þeir sem mest hafa fárast yfir nafnlausum bloggurum undanfarið skuli hafa þolað skrif hans öll þessi ár. En þyrfti ekki annars að fara í það að smíða bloggsíðu fyrir kappann eða þá bara að birta hann á netinu með hinum nafnlausu skoðunum Morgunblaðsins?
Kannski ónefndi maðurinn geti svarað því í athugasemdakerfinu mínu...
AJ.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar