Leita í fréttum mbl.is

Nýir nágrannar og fasteignaverð á Njálsgötunni

d7d3e54ba9f3aba3ff8b1e7bf7980148-200Borgin hefur keypt hús við Njálsgötu 74 og hyggst veita þar heimilislausu fólki húsaskjól. Stór hluti íbúanna í húsinu verður því væntanlega fólk sem er réttnefnt rónar og útigangsmenn.

Það vill svo til að sjálfur bý ég á Njálsgötu. Er nýfluttur hingað. Mér dettur samt ekki í hug að skrifa undir neinn lista sem bannar borginni að hýsa heimilislaust fólk í þessari götu.

Þó ég skilji það sjónarmið að það geti verið hvimleitt á stundum að vera í miklu návígi við göturóna þá er það bara eins og hvað annað sem mætir manni í miðborginni. Verslunareigendur í Kvosinni, vestan Lækjargötu, þekkja "rónavandamálið" sem hefur verið viðvarandi þar. En lausnin er ekki sú að finna þessu fólki stað þar sem við þurfum ekki að horfa upp á það. Ég er feginn að borgin er að sinna þessu fólki, bæði í líknar- og mannúðarskyni sem og í því skyni að aðstoða það með þá krankleika, drykkjusýki eða aðra andlega sjúkdóma, sem það hrjáist af.

Nágranni minn (reyndar bý ég töluvert ofar í götunni en hann) Pétur Gautur
tjáði sig um þetta mál í Fréttablaðinu á fimmtudag og sagði meðal annars:

„Auðvitað þarf þetta fólk að vera einhvers staðar en þarf það endilega að vera við hliðina á mér? Ég hef áhyggjur af því að fasteignin mín sé að falla í verði með þetta fólk þarna. Við viljum að þarna séu venjulegar fjölskyldur eins og skipulagið gefur til kynna og að þetta fari í grenndarkynningu svo við getum sagt það sem okkur finnst. Það er mikill hugur í fólki hér að þetta verði aldrei,"

Ég held að Pétur verði að átta sig á því að hann býr í miðborg Reykjavíkur. malt_utanMiðborgin er ekki sérstakt fjölskylduhverfi. Hér búa vissulega fjölskyldur en líka alls konar fólk. Hér ægir saman erlendum verkamönnum, einstæðingum, túristum, gömlum sérvitringum, ungu skóla- og listafólki, miklu af leiguíbúðum o.s.frv. Og hér í götunni, hef ég tekið eftir, eru jafnan ýmsir kynlegir kvistir á ferð, bæði rónar og annað fólk.

Þetta er m.a. ein ástæða þess að mér finnst gott að búa hérna. Maður finnur fyrir umhverfinu. Nábýlið er slíkt að ég horfi beint inn í eldhús, svefnherbergi, bað og stofu hjá nágrönnum mínum allt eftir því við hvaða glugga ég stend. Skrautleg bakhús og innréttaðir bílskúrar setja svip sinn á hverfið. Allt finnst mér þetta mun skemmtilegra borgarskipulag heldur en raðirnar af blokkum sem má finna í Grafarholti, Norðlingaholti og í raun hvaða nýja hverfi sem byggt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin áratug. Hér finnst mér ég vera hluti af samfélagi.

En kannski er þetta óumflýjanleg þróun? Þingholtinn og Gamli Vesturbærinnimage.ashx?type=coverstory&w=1&img=Issue7_2006_Nammi verði innan fárra ára orðin hreinsuð hverfi vel stæðra fjölskyldna sem breyta görðunum og rífa bakhúsin til að koma fyrir innkeyrslum fyrir lúxusbílana sína? Vilja sem minnst af nágrönnum sínum vita og stíga bara upp bílana sína og keyra í burtu. Sækja ekki hverfisbúðina Kjötborg eða Drekann og sjást bara eiginlega aldrei.

Kannski er það bara afleiðing af velsældinni og þróun fasteignaverðs að fjölbreytt samfélagið sem þrifist hefur í þessum miðborgarhverfum víki fyrir kapítalískri nauðsyn og finni sér stað einhvers staðar annars staðar þar sem fermetraverðið er enn sómasamlegt og hægt að vera í friði fyrir góðborgurum.

AJ.


P.s. Foreldrar mínir búa á horninu á Oddagötu í Vatnsmýrinni. Þar hinum megin við götuna er ekkert nema móar og mýri. Fyrir nokkrum árum var tilkynnt um að skipuleggja ætti vísinda- og tæknigarða þarna á þessu svæði. Íbúarnir í götunni ruku upp og gengu í hús með undirskriftalista og nefndu útsýni sem væri í hættu og, gott ef ekki var, fasteignaverðið líka.

Foreldrar mínir voru þau einu í götunni sem neituðu að skrifa undir. Móðir mín sagði við fólkið með undirskriftarlistann "Ég hef valið að búa í borg og í ljósi þeirrar ákvörðunar minnar finnst mér að mér sé ekki stætt á því að gera kröfu um að engu í umhverfinu verði breytt og að stór svæði standi óbyggð um aldur og ævi. Það er bara partur af því að búa í borg."


Athugasemdir

1 identicon

Finnst það bara vera frekja að vilja stjórna því hverjir búi/gisti í nágreninu. Ef viðkomandi líkar illa við þá þróun sem verður í nágreninu þá er honum frjálst að flytja annað.

Geiri (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 12:20

2 Smámynd: Hákon Baldur Hafsteinsson

Það segir sitt um firringuna hér á landi árið 2007 að þessum ,,mótmælendum" á Njálgötunni skuli þykja vænna um dauða hluti heldur en náungann. Ég bý þarna í næsta nágrenni og mér hrýs hugur við því ef miðbærinn verður úrkynjað plebbahverfi nýríks fólks. Er því mjög sammála því sem þú segir í færslu þinni, Andrés, og tek ofan fyrir foreldrum þínum að taka ekki þátt í undirskriftavitleysunni þar sem þau búa.

Ellert B. Schram er einmitt með góða hugvekju í Fréttablaðinu í dag sem kemur að vissu leyti inn á svipaða hluti. Maður hristir hausinn yfir því hvernig þetta er orðið hérna, svo mikið er víst. 

Hákon Baldur Hafsteinsson, 28.4.2007 kl. 14:29

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Fínn pistill.  Það er oft með eindæmum hvernig íbúar vilja fá öll þægindi af því að búa í eða við miðbæ, en kvarta hástöfum yfir öllu því sem fylgir.  Það er engu líkara en margir telji sig eiga rétt á því að búa í "úthverfi" í miðbænum. 
Það er svo líka jafnvel sama fólkið sem vill fyrir ákveðna hópa gera, nema að leyfa þeim að flytja í nágrennið.  NIMBYisminn lætur ekki að sér hæða.

Sömuleiðis virðast margir vilja þétta byggð, alls staðar nema þar sem það er eðlilegt, á miðbæjarsvæðinu.  Þar vill fólk búa í "litlu sætu" húsunum.

Ef menn vilja meiri þéttingu og meiri "stórborgarbrag", verður auðvitað að rífa hverfin sem eru næst og í miðbænum, og byggja þar háa og þetta byggð, neðstu hæðirnar með verslunum, þjónustu og skrifstofum og svo íbúðir þegar ofar dregur.

En það er rétt eins og með "rónana" slíkt vilja margir gera, en bara ekki í hverfinu sínu.

G. Tómas Gunnarsson, 28.4.2007 kl. 15:38

4 Smámynd: Viðar Eggertsson

Í 17 ár bjó ég í Þingholtsstræti beint á móti Gistiskýlinu þar fyrir útigangsmenn. aldrei hef ég haft þægilegri nágranna. Það var aldrei neitt ónæði af þeim. Þeir voru einstaklega prúðir við nágrannanna og öbbuðust aldrei uppá mig.

En það gerðu stundum svokallaðir "betri borgar" stundum, þó það hafi ekki verið of til ama.

Ég held að þessir góðu nágrannar, sem sumir hverjir voru þekktir af því að vera innbrjótsþjófar og örlagabyttur, virtist vera umhugað að styggja ekki nágrannanna sína, því þeir vissu að með því stefndu þeir gistimöguleikum sínum í voða. Það virtust vera óskrifuð lög hjá þeim að nágrannarnir voru friðhelgir!

Ég gef þessum fyrri nágrönnum mínum, utangarðsmönnum, bestu einkunn. svo ég segi: Tl hamingju Grettisgötubúar að fá svona góða granna!

Viðar Eggertsson, 28.4.2007 kl. 20:20

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Fyrirgefiði, auðvitað meinti ég Njálsgötubúar! Það er sitthvað Grettir eða Njáll, þó garpar hafi verið báðir!

Viðar Eggertsson, 28.4.2007 kl. 20:22

6 Smámynd: Andrés Jónsson

Hákon: Það hversu kirkjunnar menn eru tvístigandi í afstöðu sinni gagnvart samkynhneigð er náttúrulega sorglegt dæmi um hversu oft breyskleika mannsins sést best í húsi og þjónum heilags anda. En ég held að það sé best sem samkynhneigðir hafa flestir gert og það er að bjóða hinn vangann.

G. Tómas: Þetta með Nimby-ismann er dáldið vandmeðfarið. Bæði vill maður sjá íbúalýðræði þar sem fólk fær að hafa eitthvað að segja um nærumhverfi sitt en um leið virðist ekki hægt að treysta mörgu fólki til að láta neitt ráða atkvæði þess nema þrönga sérhagsmuni þeirra sjálfra. Þetta er ástæða þess að maður sveiflast á milli þess að telja beint lýðræði eða fulltrúalýðræði fullkomnara. Sjálfsagt tengist það prívat skoðunum manns á hverjum tíma sbr. Fjölmiðlafrumvarpið og aukin meirihluta sem þínir menn vildu setja sem kvöð á þjóðaratkvæði.

Viðar: Já. Farsóttarhúsið gamla. Það eru mörg hús í Þingholtunum þar sem fólk í misjöfnu ástandi fær að halla sínu höfði. En það er góður punktur. Við erum öll breysk og sjálfsagt þurfa menn að umbera ýmislegt af hálfu nágranna sinna og samborgara annarra en þeirra sem eru "óstaðsettir í hús" eins og það er kallað hjá Þjóðskrá.

Andrés Jónsson, 28.4.2007 kl. 20:42

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er rétt að íbúalýðræði er vandmeðfarið, þó það sé oft æskilegt.  Hins vegar má líka velta því fyrir sér að ef alltaf væri farið að "vilja" íbúanna eða þeir látnir greiða atkvæði, hvar væru þá athvörf fyrir útigangsmenn, sambýli geðfatlaðra, áfangaheimili afbrotamanna og svo framvegis, svo eingöngu séu nefnd örfá dæmi um það sem hefur valdið úlfúð hér og þar á undanförnum árum. 

Og hvað er "helgunarsvæðið" stórt?

G. Tómas Gunnarsson, 28.4.2007 kl. 21:38

8 Smámynd: Björn Kr. Bragason

Ég er uppalinn Þinghyltingur, og hef því alveg séð minn skammt af rónum í gegnum tíðina, og verð að segja að miðbærinn væri ekki samur án þeirra. Þessir menn eru bestu skinn sem hafa bara þvælst af leið í lífinu. Ég er líka 100% sammála því að það þarf að sporna við þeirri þróun að miðbærinn breytist í nýríkt snobbhverfi.

Björn Kr. Bragason, 28.4.2007 kl. 23:00

9 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Ég bý á Njálsgötunni, að vísu mun vestar en þetta, og mér dettur ekki í skrifa undir svona lista enda efast ég ekki um að þetta verði mun betri nágrannar heldur en margir þeir sem ég hef kynnst.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 30.4.2007 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 265833

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband