Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.5.2007
Skref í rétta átt
Það er full ástæða til að fagna þessum fréttum. Mjólkursamsalan hefur selt Emmess ís (fyrirtækið ekki ísinn) til einkafyrirtækisins Sólar. Næst mætti brjóta upp Mjólkursamsöluna/Norðurmjólk og afnema framleiðslustyrki til landbúnaðar.
Það munu hafa ríkt mjög skrýtnar samkeppnisaðstæður á ísmarkaðnum undanfarin ár. Eftir því sem mér er sagt þá voru ekki venjuleg markaðsrök alltaf á bakvið vöruþróun og markaðssetningu hjá Emmess ís heldur var helst horft til þess hversu marga mjólkurlítra mætti nota í framleiðsluna.
Kjörís fagnar því væntanlega að þurfa ekki lengur að keppa við fyrirtæki sem á allt sitt undir niðurgreiðslum frá skattgreiðendum
En eitt skal ég segja Mjólkursamsölunni til hróss. Það eru herferðir þeirra til stuðnings íslenskri tungu, íslenskum bókmenntum og dægurmenningu. það hefur verið frábært hjá þeim hvernig þeir hafa notað mjólkurfernurnar til að fræða börn og fullorðna um land allt og virkja sköpunarkraft almennings. En ég trúi að einkaaðilar geti líka séð sér hag í að reka slíkar ímyndarherferðir.
Það má vona að ný ríkisstjórn fari í málið og leyfi matvöru að lúta markaðsöflunum svo að matarkarfa landsmanna lækki eitthvað í verði og verði ekki endilega áfram sú dýrasta í heimi!
Sól kaupir Emmessís | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2007
Skemmtilegt Silfur
Silfrið var með besta móti í dag (því miður síðasti þátturinn í bili). Bara stórskemmtilegt!
1. Fyrst voru mætt Siv Friðleifsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Steinunn Valdís Óskars og Árni þór Sigurðsson. Árni Þór var mættur til að reyna að stroka yfir það sem flestum finnst augljóst að innsta klíka Vinstri Grænna ákvað strax eftir kosningar að vænlegast væri að veðja á samstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Held reyndar það sé ofgert að kenna Steingrími J. um það einum. Ég tel að Jakobsbörn, Ögmundur, Svandís og Árni Þór sjálfur hljóti öll að hafa verið með á fundinum þar sem þetta var lagt upp.
Annars tel ég að VG-liðar eigi skilin einhver bjartsýnisverðlaun fyrir að reyna að endurskrifa söguna um stjórnarmyndunartaktík sína þegar svona skammt er liðið. Tek eftir að sagnfræðingurinn Stefán Pálsson hefur ekkert bloggað um þetta mál. Hann er heldur ekki mikið fyrir að vera að spila einhvern spunakarl.
En það var óneitanlega soldið sérstakt á hlusta á hvernig þessi hópur talar núna. Allir enn að reyna að finna taktinn í nýjum hlutverkum. Merkilegt t.d. að hlýða á Siv, sem varið hefur stjórnina í 12 undanfarin ár, segja að hún sé farin að hafa áhyggjur af framgangi mála stjórnarandstöðunnar sem hingað til hafa ekki haldið fyrir henni vöku. En jú. Það er augljóst að allra flokka flokkshundar þurfa núna að snúa nokkurn veginn við á punktinum í allri "retórík" (ég hata orðið "orðræða").
Ég upplifi þetta ástand svipað og ég ímynda mér tímabundið þyngdarleysi sem hægt er að ná í sérstökum flugvélum. Nú er maður með þá forgjöf að hafa enn í fersku minni áróður allra aðila og á meðan maður hlustar á þá snúa við í málflutningi sínum og skipta um helming á fótboltavellinum þá ríkir svona tímabundið "no-spin zone".
Allur spuninn verður svo augljós.
2. Síðan mættu í þáttinn álitsgjafarnir Pétur Gunnarsson, Sigurður G. Tómasson, Andrés Magnússon og Pétur Tyrfingsson og færðist þá enn meira fjör í leikinn. Pétur Tyrfings kom með bráðfyndna samlíkingu á VG og Frjálslyndum. Hann sagði að báðir flokkar væru í því að reyna að sannfæra fólk um að merkjasendingar þeirra og ummæli þýddu eitthvað allt annað en væri skilningur alls þorra fólks.
Sigurður G. kom með fyndinn brandara á kostnað Styrmis Gunnarssonar. Hann spurði Pétur Tyrfings sem sálfræðing hvort að áhyggjur og endurtekin notkun orða eins og "hætta" og "áhætta" í Reykjavíkurbréfi væri ekki dæmi um að sá sem héldi á penna væri haldinn einhvers konar fælni?
Annars er Pétur Tyrfings ferskasti álitsgjafinn í svona þáttum. Klár maður, laus við ambisjónir, sem getur sagt það sem honum sýnist.
Vinir mínir eru margir komnir með upp í kok af stjórnmálaumræðum en við þessir hörðustu áhugamenn um pólitíkina horfum á svona þætti með sama viðhorfi og við horfum á kappleiki. Silfrið í dag fór þannig í mínum huga nærri því að jafnast á við það þegar Manchester United sigraði Bayern Munchen í Meistaradeildinni um árið.
AJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2007
Færri að spá í fánadögum?
Það var fánadagur á mánudaginn síðasta en þá átti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, afmæli.
Veit ekki hvort það var bara ég en mér fannst ég ekki verða var við að fólk væri mikið að flagga.
Reyndar sá ég að Þórarin Eldjárn, rithöfundur og sonur eins fyrrum forseta okkar, klikkaði ekki á þessu.
Kannski var ég bara á ferð á vitlausum stöðum í borginni eða þá að þessi hefð er hægt og hægt að hverfa. Svo er kannski eitthvað minna um að fólk sé með fánastangir í garðinum hjá sér. Það fær frekar útrás fyrir þjóðerniskenndina í tengslum við Júróvisjón.
18.5.2007
Frjálslynd umbótastjórn
Er einmitt það sem við þörfnumst held ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007
Flokksystur/tvífarar dagsins
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Borgin hefur keypt hús við Njálsgötu 74 og hyggst veita þar heimilislausu fólki húsaskjól. Stór hluti íbúanna í húsinu verður því væntanlega fólk sem er réttnefnt rónar og útigangsmenn.
Það vill svo til að sjálfur bý ég á Njálsgötu. Er nýfluttur hingað. Mér dettur samt ekki í hug að skrifa undir neinn lista sem bannar borginni að hýsa heimilislaust fólk í þessari götu.
Þó ég skilji það sjónarmið að það geti verið hvimleitt á stundum að vera í miklu návígi við göturóna þá er það bara eins og hvað annað sem mætir manni í miðborginni. Verslunareigendur í Kvosinni, vestan Lækjargötu, þekkja "rónavandamálið" sem hefur verið viðvarandi þar. En lausnin er ekki sú að finna þessu fólki stað þar sem við þurfum ekki að horfa upp á það. Ég er feginn að borgin er að sinna þessu fólki, bæði í líknar- og mannúðarskyni sem og í því skyni að aðstoða það með þá krankleika, drykkjusýki eða aðra andlega sjúkdóma, sem það hrjáist af.
Nágranni minn (reyndar bý ég töluvert ofar í götunni en hann) Pétur Gautur tjáði sig um þetta mál í Fréttablaðinu á fimmtudag og sagði meðal annars:
Auðvitað þarf þetta fólk að vera einhvers staðar en þarf það endilega að vera við hliðina á mér? Ég hef áhyggjur af því að fasteignin mín sé að falla í verði með þetta fólk þarna. Við viljum að þarna séu venjulegar fjölskyldur eins og skipulagið gefur til kynna og að þetta fari í grenndarkynningu svo við getum sagt það sem okkur finnst. Það er mikill hugur í fólki hér að þetta verði aldrei,"
Ég held að Pétur verði að átta sig á því að hann býr í miðborg Reykjavíkur. Miðborgin er ekki sérstakt fjölskylduhverfi. Hér búa vissulega fjölskyldur en líka alls konar fólk. Hér ægir saman erlendum verkamönnum, einstæðingum, túristum, gömlum sérvitringum, ungu skóla- og listafólki, miklu af leiguíbúðum o.s.frv. Og hér í götunni, hef ég tekið eftir, eru jafnan ýmsir kynlegir kvistir á ferð, bæði rónar og annað fólk.
Þetta er m.a. ein ástæða þess að mér finnst gott að búa hérna. Maður finnur fyrir umhverfinu. Nábýlið er slíkt að ég horfi beint inn í eldhús, svefnherbergi, bað og stofu hjá nágrönnum mínum allt eftir því við hvaða glugga ég stend. Skrautleg bakhús og innréttaðir bílskúrar setja svip sinn á hverfið. Allt finnst mér þetta mun skemmtilegra borgarskipulag heldur en raðirnar af blokkum sem má finna í Grafarholti, Norðlingaholti og í raun hvaða nýja hverfi sem byggt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin áratug. Hér finnst mér ég vera hluti af samfélagi.
En kannski er þetta óumflýjanleg þróun? Þingholtinn og Gamli Vesturbærinn verði innan fárra ára orðin hreinsuð hverfi vel stæðra fjölskyldna sem breyta görðunum og rífa bakhúsin til að koma fyrir innkeyrslum fyrir lúxusbílana sína? Vilja sem minnst af nágrönnum sínum vita og stíga bara upp bílana sína og keyra í burtu. Sækja ekki hverfisbúðina Kjötborg eða Drekann og sjást bara eiginlega aldrei.
Kannski er það bara afleiðing af velsældinni og þróun fasteignaverðs að fjölbreytt samfélagið sem þrifist hefur í þessum miðborgarhverfum víki fyrir kapítalískri nauðsyn og finni sér stað einhvers staðar annars staðar þar sem fermetraverðið er enn sómasamlegt og hægt að vera í friði fyrir góðborgurum.
AJ.
P.s. Foreldrar mínir búa á horninu á Oddagötu í Vatnsmýrinni. Þar hinum megin við götuna er ekkert nema móar og mýri. Fyrir nokkrum árum var tilkynnt um að skipuleggja ætti vísinda- og tæknigarða þarna á þessu svæði. Íbúarnir í götunni ruku upp og gengu í hús með undirskriftalista og nefndu útsýni sem væri í hættu og, gott ef ekki var, fasteignaverðið líka.
Foreldrar mínir voru þau einu í götunni sem neituðu að skrifa undir. Móðir mín sagði við fólkið með undirskriftarlistann "Ég hef valið að búa í borg og í ljósi þeirrar ákvörðunar minnar finnst mér að mér sé ekki stætt á því að gera kröfu um að engu í umhverfinu verði breytt og að stór svæði standi óbyggð um aldur og ævi. Það er bara partur af því að búa í borg."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.4.2007
Þekktur öðlingur í framboð
Það er ekki hægt annað en að fagna þessu. Það vita allir sem þekkja Magnús hversu mikill öðlingur er þar á ferð.
Hlýtur að vera gott fyrir Samfylkinguna ef hann situr þar í æðstu stjórn enda bætir hann hvern þann hóp sem hann kemur að.
Tvennt sem ég vil þó nefna honum til lasts:
1) Hvað hann er hrikalega slappur í Singstar.
2) Hann á enn eftir að gera að fullu upp við mig vegna afmælisgjafar sem ég lagði út fyrir og var til sameiginlegs vinar okkar.
Bið hann vinsamlega að gera þetta upp sem fyrst!
AJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eins og ég hefur áður fjallað um á þessu bloggi þá þykir mér (og sjálfsagt mörgum öðrum) óeðlilegt hversu umsvifamikið ríkið er á samkeppnismarkaði og hvernig ríkisfyrirtæki og stofnanir eru að taka, að því er virðist, sjálfstæðar ákvarðanir um að setja peninga skattborgarana í alls kyns áhættusaman rekstur í samkeppni við einkaaðila.
Menn hafa nefnt dæmi um slíka háttsemi í tengslum við Íslandspóst, fjármálaráðuneytið, ríkisspítalana, flugmálastjórn, matvælastofnun, utanríkisráðuneytið í gegnum flugstöðina o.s.frv. Dæmin eru því miður talsvert fleiri.
Ég rak augun í þetta hér á vefsíðu vefmælingafyrirtækisins Modernus og sá að Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts situr þar í stjórn:
Hlutafé og stjórn Einkahlutafélagið Modernus var stofnað 4. mars 2000 í húsakynnum félagsins að Garðastræti 17, 101 Reykjavík. Hlutafé félagsins er kr. 27.039.494 að nafnvirði. Hluthafarnir eru þrettán og þrír af stofnendunum eiga meira en 10% í félaginu. Stjórnarformaður Modernus ehf er Tryggvi Karl Eiríksson sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands. Aðrir í stjórn eru Bárður Hreinn Tryggvason fasteignasali og fjárfestir, Magnús Soffaníasson meðstofnandi og framkvæmdastjóri TSC ehf, Jens Pétur Jensen þjóðhagfræðingur, sem jafnframt er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi félagsins, og Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts, en Íslandspóstur hf. er nýjasti hluthafinn með tæplega 19% hlut.
Ég leitaði í fréttum á heimasíðu Íslandspósts sem venjulega er mjög duglegur að senda frá sér fréttir um allt mögulegt sem hann tekur sér fyrir hendur en ekkert fann ég um kaupin í Modernus. Í ársskýrslu er hins vegar skylt að skýra frá svona kaupum og þar fann ég þetta loksins og reyndar meira til. Það kemur upp úr kafinu að við skattborgararnir erum í gegnum Íslandspóst einnig hluthafar í Norðlenska matborðinu ehf. (Hvað er Pósturinn að gera að fjárfesta í kjötvinnslu?!?).
Jasso! Og svo skilja menn ekki afhverju ríkið blæs út!
AJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fulltrúar annarra stjórnmálaflokka hafa verði duglegir við að tala niður framboð Íslandshreyfingarinnar. Reyndar voru þeir byrjaðir að blogga um "hvernig Margrét og Ómar væru búin að missa af lestinni" nokkru áður en þau tilkynntu formlega um nýja framboðið.
Ég skil reyndar ekki alveg þessi rök. Varla eru þau of sein til að blanda sér í kosningabaráttuna - það hefur enn engin stemning myndast fyrir þessar kosningar. Absolútt engin! Gjörsamlega andlaust dæmi af hálfu allra flokka.
Ég held reyndar að þau hefðu getað "toppað of snemma" með því að koma fram fyrr. Íslandshreyfingin gæti náð að láta umræðuna snúast um sig - ekki síst ef þau finna sér einhver fleiri góð mál en umhverfismálin.
Mér hefur einnig þótt það skynsamlegt af hálfu Margrétar Sverrisdóttur að hafa haldið sér til hlés í fjölmiðlum á meðan á undirbúningi framboðsins hefur staðið - en almenningur var nálægt því að fá "óver-dós" af henni í kringum þennan klofning í Frjálslynda flokknum. Greinileg gúrka í gangi þá daga.
Ómar hefði betur mátt halda sér til hlés líka - það skiptir ekki alltaf máli að komast sem oftast í fjölmiðla heldur frekar hvað þú hefur að segja þegar þú kemur í viðtöl.
Annars er ég bara nokkuð ánægður með þennan nýja flokk. Ég held það veiti ekkert af því að hrista aðeins upp í flokkakerfinu við og við.
Ómar Ragnarsson hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því ég var á leikskóla og lærði fugladansinn. Ótrúlegur kraftur í einum manni. Þetta er maður sem fær hugmyndir og framkvæmir þær. Hefur gert í áratugi. Líklega einn dáðasti Íslendingurinn fyrr og síðar.
Sama má segja um Jakob Frímann Magnússon. Geysilega framkvæmdaglaður og frjór. Góður liðsauki fyrir hvaða hóp sem er. Ekki skaðar hvað hann talar flotta íslensku.
Margrét Sverrisdóttir er líka mjög fín, það sem ég þekki til hennar. Örugglega ekki versti fulltrúi sem við getum valið til að taka þátt stjórn lands eða borgar.
Tek samt fram að ég mun ekki kjósa þau í vor. En óska þeim samt góðs gengis. Þetta verður ærið verkefni.
AJ.
P.s. Vek athygli á skoðanakönnuninni hér til hliðar þar sem spurt er um uppáhalds Ómarinn þinn. Þetta er ekki tæmandi listi heldur svona "greatest hits".
Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2007
Framtíðarlandið - umhverfis PAC???
Nú fæ ég kannski bágt fyrir frá einhverjum kunningjum mínum fyrir að vera að taka undir með Birni Inga Hrafnssyni en ég hugsaði einmitt eitthvað svipað og hann þegar ég sá fyrst sjónvarpsauglýsingar frá Framtíðarlandinu þar sem þeir biðja um að fólk skrifi undir sáttmála um framtíð Íslands (María Ellingsen leikur í auglýsingunni, Steingrímur Hermannsson og einhver drengur sem er svo skýrmæltur að hann hlýtur að vera leikarabarn).
Ég hugsaði eitthvað á þá leið, þegar ég sá þetta, að hér væri komið ágætt dæmi um það hvernig lobbýisminn mun þróast og að hér gæti verið kominn forsmekkurinn á því sem koma skal eftir að lög um takmarkanir á fjárstuðningi við stjórnmálaflokka voru sett í fyrra.
Úr öskunni í eldinn?
Í Bandaríkjunum eru vel þekktar svokallaðar PAC-nefndir (Political Action Committee), en með því að styrkja þær geta fyrirtæki og einstaklingar komið málstað sínum á framfæri lausir við þær hömlur sem lagðar eru á hefðbundna styrki til stjórnmálamanna eða flokka. PAC-nefndirnar eru líka oft notaðar til að berja á andstæðingum þeirra stjórnmálaafla sem aðstandendur nefndanna styðja. Þannig geta stjórnmálaöfl gengið harðar fram í árásum án þess að þurfa að bera sjálf ábyrgð á þeim staðhæfingum sem auglýstar eru.
Framtíðarlandið segir í auglýsingum sínum að stjóriðjustefnan dragi mátt úr öðrum atvinnugreinum. Það væri reyndar smart og heiðarlegt hjá þeim að skýra frá því ef að auglýsingarnar þeirra eru fjármagnaðar af fyrirtækjum/hagmunaaðilum sem tilheyri einhverjum af þessum öðru atvinnugreinum sem þeir nefna. En annars get ég vel tekið undir þetta sjónarmið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nær alltaf mjög óhagkvæmt þegar að ríkið eða stjórnmálamenn eru að blanda sér í það hvaða atvinnugreinar skuli byggja upp. Þarna eigum við að treysta markaðsöflunum en einbeita okkur að því að tryggja gott umhverfi fyrir öll fyrirtæki í landinu ásamt því að fylgjast með því að öllum leikreglum sé fylgt.
Skógareldar í Indónesíu valda 10% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á umhverfisvernd þó svo að Kárahnjúkar hafi ekki eignast þann stað í hjarta mínu sem þeir virðast hafa gert hjá mörgum öðrum. Ég hef haft meiri áhyggjur af eyðingu skóga í Asíu og Suður Ameríku, vaxandi loftmengun í borgum heims og áhrifum stórfelldrar fjölgunar mannkynsins á umhverfið.
Einnig hef ég haft áhyggjur af andvaraleysi Íslendinga gagnvart ýmsum nauðsynlegum aðgerðum svo sem endurvinnslu og flokkun rusls í heimahúsum og á vinnustöðum. Ég hef það á tilfinningunni að sú lífseiga skoðun Íslendinga að landið okkar sé táknmynd hreinleika og óspilltrar náttúru hafi seinkað því að við tækjum ábyrgð á fylgifiskum þess lífsgæðakapphlaups og hagvaxtar sem hér hefur ríkt. Hvað sem líður allri þjóðerniskennd þá er ljóst að Íslendingar hafa lengi verið aftarlega á merinni í umhverfismálum.
Virkjun fallvatna er alls ekki versta dæmið um þetta.
Umhverfismál aftur í tísku
Það var áberandi hvað umhverfismál sem baráttumál í stjórnmálum voru í skelfilega mikilli lægð á tíunda áratugnum og fyrstu árum þessarar aldar, allavega í samanburði við áratuginn þar á undan. Þetta var svona í flestöllum vestrænum ríkjum held ég. Núna er hins vegar ákveðin vakning í gangi á vesturlöndum og það er gott. Vonandi verður hún samt ekki til þess að við sendum öll vandamálin okkar bara beinustu leið til þróunarlandanna með því að færa mengunarframleiðsluna alla þangað.
Það er ástæða til að minna á það í þessari umræðu að fátæktin sem ríkir sums staðar í heiminum er ein allra stærsta ógnunin við umhverfið. Það er alvarlegt vandamál að fólk er víða einfaldlega of fátækt til að geta haft áhyggjur af umhverfismálum - margir neyðast til að beina allri sinni orku í það að eiga fyrir næstu máltíð handa sér og fjölskyldu sinni. Ef við finnum ekki lausn á þessu vandamáli þá er hætt við að aðrar aðgerðir til að bjarga jörðinni verði til lítils.
AJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar