Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Facebook er óvíða jafn vinsælt og á Íslandi. Þarna er því saman kominn vænlegur markhópur sem æ fleiri fyrirtæki reyna að nálgast.
---
Ég velti því samt fyrir mér þegar að efri auglýsingin (hér að neðan) birtist mér á Facebook hvort það hefði ekki borgað sig að fá auglýsinguna þýdda af Íslendingi?
Svo virðist sem að eigendur þessarar sænsku stefnumótarsíðu hafi látið nægja að henda sænsku inn í Google Translate.
Það hefði líklega borgað sig að hafa beygingar í lagi fyrir þeir eru á annað borð borga fyrir birtingu á Facebook-síðum Íslendinga.
---
Eða þá að þeir séu að veðja á að myndin, eins og sér, dugi til að fá íslenska einhleypinga til að smella.
Varðandi neðri auglýsinguna þá treystir það fyrirtæki greinilega á dönskukennslu í íslenskum grunnskólum.
Þarna er semsagt hægt að taka eyrnarmerg úr eyranu á afa og senda til kóngsins Köbenhavn og komast að því hvort að hann sé í raun veru afi manns...
---
Annars er þetta nokkuð sniðugt hjá þeim. Er ekki sagt að á Íslandi séu óvenjuleg fjölskyldumynstur svo algeng að þau teljist eiginlega venjuleg?
Líklega hefur hvarflað að Dönunum að það væri ekki vanþörf á að bjóða Íslendingum upp á DNA-próf í gegnum netið.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2009
Töff týpa á Facebook
Notkun Baracks Obama forseta Bandaríkjanna á samfélagsmiðlum sýnir afhverju þessi maður er eitursvalasti stjórnmálamaður jarðarkringlunnar.
Í dag er hann t.d. að virkja Facebook til að fá almenning til að hringja í bandaríska þingið og láta í ljós ósk um breytingar á heilbrigðiskerfinu þar Vestra.
Og þó að hann sé forseti voldugasta ríkis heims þá er hann ekkert að fara í kringum hlutina.
...insurance company lobbyists on Capitol Hill are working overtime to kill it.
Töffari.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.10.2009
Míla
Efast ekki um að það sé nauðsynlegt að draga saman hjá þessu fyrirtæki.
En það væri örugglega ekki til að kæta þá starfsmenn sem nú fá reisupassann, ef þeir vissu hvaða augum fagmenn í auglýsingabransanum líta útgjöld fyrirtækisins í markaðsmálum undanfarin ár.
---
Míla hefur síðustu 1-2 ár rekið eina furðulegustu markaðsherferð síðari ára. Enn hef ég engan hitt í markaðsbransanum sem getur fyllilega útskýrt hvaða hugsun er á bakvið hana.
Míla er á fyrirtækjamarkaði og sinnir fyrst og fremst fjórum viðskiptavinum: Símanum, Tal, Vodafone og Nova.
Samt auglýsir Míla með heilsíðum í blöðum og löngum sjónvarpsauglýsingum á besta sýningartíma. Svona eins og ef þeir væru að reyna að ná til almennings.
Þegar almenningur situr heima í stofu og horfir á auglýsingu frá Mílu þá er hann engu nær um hvað hann geti eiginlega keypt af þessu fyrirtæki...
---
Ein þeirra kenninga sem fleygt hefur verið fram um þessa undarlegu ráðstöfun á markaðspeningum er sú að um sé að ræða fyrirtæki með mikið fjárstreymi og metnaðarfulla stjórnendur og þeim hafi bara farið að leiðast að sjá ekki fyrirtækið sitt í sjónvarpinu.
Því hafi þeir ákveðið að setja milljónir í auglýsingaherferð í meinstrím miðlum, þrátt fyrir að erfitt sé að sjá hvernig það skili sér í auknum viðskiptum fyrir Mílu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.9.2009
Hjartanlega sammála
Hjálmar Gíslason hjá Datamarket deilir af reynslu sinni á nýsköpunarvef N1. Þetta er gott stöff hjá honum.
Færslan heitir "5 ráð handa frumkvöðlum".
Ég tek sérstaklega undir ráð nr.2. Hjartanlega sammála Hjálmari hér.
2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.
Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.
Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: "It's 1% inspiration and 99% perspiration". Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.
---
Að liggja á hugmyndum eða reyna að halda í þekkingu er eitthvað sem ég hef markvisst reynt að venja mig af á síðustu árum.
Og það hefur ræst að um leið og maður fer að deila og skiptast á hugmyndum við fólk, óhræddur um að það steli af manni eða maður sé að gefa þeim forskot, þá fer maður að fá margfalt tilbaka það sem maður gefur frá sér.
---
Hvet annars alla til að senda inn hugmyndir í Start09 hugmyndasamkeppnina. Frestur til miðnættis á morgun og ekki nauðsynlegt að skila fullkominni viðskiptaáætlun (þó að það megi líka alveg).
Það hefur ekki verið lægri þröskuldur í nýsköpunarkeppni á Íslandi fyrr að ég held. Og þó tel ég víst að við munum fá mörg mjög flott verkefni út úr þessu.
---
Svo er líka spennandi gigg í Iðnó milli kl.16 og 18 mánudaginn 5. okt þegar að Jeff Taylor kemur með workshop/brainstorm konsept sem hann er nýbúinn að vera með í Harvard.
Það er víst ókeypis inn á þetta meðan húsrúm leyfir. Skráning hér.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2009
Hin víðfræga hógværð Apple-fólks
Ég er sjálfur enginn snillingur í fyrirsagnasmíð.
En lýsir það ekki algeru andleysi hjá vefmiðlunum að þeir skuli allir nota sömu fyrirsögn og var á yfirlýsingunni sem barst frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í kvöld?
---
Allir eru með þessa fyrirsögn hér:
Yfirlýsing frá Gaumi ehf. (Sjá 1, 2)
Afhverju ekki:
"Eignarhaldsfélag Baugsfjölskyldunnar sendir frá sér yfirlýsingu"
Eða bara:
"Baugsfjölskyldan sendir frá sér yfirlýsingu"
Svo mætti einfalda þetta:
"Jón Ásgeir segir Haga verða áfram í sinni eigu"
Eða:
"Segir kröfu skiptastjóra ekki snúa að sölu á Högum"
---
Þetta er náttúrulega óttalegur sparðatíningur.
En varla er ég einn um að hafa þróað með mér óþol gagnvart fréttum sem eru uppfullar af nöfnum einhverra eignarhaldsfélaga og skúffufyrirtækja.
Það er sjaldgæft að maður verði margs vísari við að hlusta á þessar fréttir.
Viðskipti og fjármál | Breytt 16.9.2009 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.9.2009
PR-stönt dagsins
Þessi apótekari kann greinilega að notfæra sér PR til að láta hjól stjórnkerfisins fara að snúast.
---
Ég hef vissulega mikla samúð með málstað hans.
Það hefur því miður hingað til verið lítil vörn í samkeppnislögunum fyrir litla aðila í rekstri sem eru að keppa við einn eða fleiri stóra aðila.
Þó að menn kvarti og kæri, þá er lengi beðið eftir því að fá niðurstöðu og viðurlögin sjaldnast slík að þau fæli stóru aðilana frá því að brjóta af sér.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.9.2009
Stórt skref: Facebook með nýjung
Social Media fréttavefurinn Mashable er með enn eitt Facebook skúbbið í kvöld.
Þau eru búin að vera nokkur í sumar og Facebook er enn og aftur að "stela" sumu af því besta sem virkað hefur á öðrum samfélagsvefjum, eins og persónulegar vefslóðir og fleira.
Ekki síst hafa þeir horft til þess sem hefur gert Twitter svona vinsælt.
---
Nú er semsagt verið að opna á þann möguleika að tengja fólk, síður og uppákomur við FB-statusa svipað eins og hægt er að gera með @-merkinu á Twitter.
Ansi magnað ef þetta er satt, þó að harðir Twittarar hnussi ef til vill og haldi fast við sinn keip um að Twitter sé bitastæðara tengslanet en Facebook.
---
Hönnuðir Facebook vonast til að þetta muni auka enn Facebook-notkun fólks og ná tengingum á milli fólks í FB-samfélaginu á víðari grunni heldur en í gegnum "vináttu".
En það hefur einmitt verið styrkleiki Twitter (að mínu áliti allavega) að þar nær maður góðu sambandi við fólk sem hefur sömu áhugasvið og maður sjálfur.
Sem er t.d. ekki alltaf raunin með Facebook og MSN til dæmis.
---
Facebook er að margra mati á góðri leið með að verða öflugasta veffyrirtæki í heimi.
Raunar talaði Árni Matthíasson hjá mbl.is um það á 9.9.9 ráðstefnunni í Salnum í gær að Facebook sendi nú þegar fleiri heimsóknir til mbl.is heldur en Google.
Taldi hann það benda til þess að fólk væri farið að nota meira eigið tengslanet til að finna efni á netinu, þar sem það notaði leitarvélar áður.
---
Twitter-samfélagið virðist mjög áhugasamt um þessar fréttir.
En rétt í þessu (kl.20:25) mátti lesa á Twitter-síðu Mashable að yfir tvö þúsund RT hafa birst á fréttinni á þeim hálftíma sem liðinn er frá því að hún birtist.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýr rekstraraðili Eden í Hveragerði hefur skipt um nafn á staðnum.
Nú heita það Iðavellir og auglýsingar sem hann hefur birt minnast aðeins á Iðavelli.
Þetta er afar skrýtin ákvörðun að taka eitt þekktasta vörumerki landsins og breyta því.
Jafnvel þó að þú sért að opna víkingasafn inn í einu rýminu á Eden og viljir skíra það konsept Iðavelli, þá er óþarfi að kasta verðmæti vörumerkisins Eden sem byggst hefur upp á mörgum áratugum og kasta því á glæ.
Svínaflensan hefur verið vinsælt umræðuefni á skrifstofu Góðra samskipta frá því að fyrst varð vart við þennan fjanda í vor.
Einn af samstarfsmönnum okkar átti bókað flug til Acapulco í Mexíkó, akkúrat helgina eftir að fréttir fóru að berast af útbreiðslu svínaflensunnar þar.
---
Mér fannst þess vegna áhugavert að heyra rætt við upplýsingafulltrúa alþjóðasambands svínabænda í útvarpinu í gær, þar sem að hann útskýrði afhverju þeir töldu ósanngjarnt að kalla flensuna svínaflensu.
Svínaflensan er talin eiga rætur að rekja til ólíkra veirustofna sem lifað hafa í mönnum, svínum og fuglum.
Ekki hefur enn verið hægt að sanna með óyggjandi hætti hvort uppruninn hafi verið í svínum eður ei.
Á þessum forsendum fóru svínabændur fram á það við vísindamenn og fjölmiðla að þeir hættu að kalla kenna flensuna við svín og að nota frekar heitið H1N1.
---
Mikill er máttur almannatengslana. Því þetta var samþykkt.
Svín eru nú ekki lengur sökudólgurinn í fréttum sem sendar eru út frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og stærstu fjölmiðlum heims.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar