Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Besta og versta í síðustu viku

Fyrir áhugamenn um markaðsmál þá eru nýjar auglýsingaherferðir einhverra af stærri fyrirtækjum landsins yfirleitt þess verðar að maður hafi á þeim skoðanir.

Nýjar sjónvarpsauglýsingar Símans eru t.d. að mínu viti feikilega vel heppnaðar.



Þeir hafa gert heila dobíu af útgáfum, en þessi er mín uppáhalds.

Hvað er svona sniðugt við þetta?

Skemmtileg lög, allar auglýsingarnar teknar í miðbæ Akureyrar, með leikurum sem hljóta að vera Norðlenskir, því ekkert andlitanna er kunnuglegt.

Það þykir mér góð tilbreyting frá miðbæjarrottunum úr 101 sem auglýsingafólki finnst svo kúl og er búið að margnýta á undanförnum árum.

Frumlegt að gera allar auglýsingarnar á Akureyri, í umhverfi sem fólk á höfuðborgarsvæðinu telur framandi.

---

Það besta við þetta er, að þrátt fyrir að auglýsingarnar eigi að snúast um sameiginlega markaðssetningu á nýjum lagabanka hjá Tónlist.is, þá nýtast auglýsingarnar fullkomlega sem ímyndarauglýsingar fyrir Símann.

Það er dýrmætt á tímum þar sem að ímyndarauglýsingar stórfyrirtækja eiga almennt mjög á hættu að fara þversum ofan í landann.

---

Þess má í leiðinni geta að keppinauturinn Vodafone er líka með nýja herferð sem fór af stað í nýliðinni viku. Hún fær líka ágætiseinkunn.



Flott myndvinnsla, flott tónlist, flottar fyrirsætur og staðir sem allir þekkja í bakgrunn er eitthvað sem ætti að hitta vel í mark hjá notendum frelsis - sem tilheyra aðallega yngstu markhópunum.

Herferð Símans endist hins vegar betur, held ég.

---

Verstu markaðsaðgerðirnar sem ég tók eftir í síðustu viku er samkrull fótboltamannsins Cristianos Ronaldo og glamúrgellunnar Parisar Hilton í Los Angeles.

parisronaldoSP_450x386

Augljóst markaðstrix upprunnið hjá ráðgjöfum stjarnanna tveggja, hugsað til að skapa þeim enn meiri innihaldslausa fjölmiðlaumfjöllun.

Sem þó nýtist kannski við að bæta samningsstöðuna við styrktaraðila af ýmsu tagi.

Bandaríkin eru markaðurinn sem allar Evrópskar stjörnur verða að ná að sigra til að græða sem mesta peninga og það er engin tilviljun að Cristiano fer þangað í frí og hvað hann gerir á meðan hann er þar.

Þetta er algjörlega úthugsað peningaplott.

---

Ég er hins vegar ekki viss um að þetta sé endilega svo sniðugt fyrir Ronaldo blessaðan. Margir af styrktaraðilum hans eru að markaðssetja til barna og fjölskyldna og Paris Hilton er með ansi gruggugt orðspor.

Ekki var ímynd Cristianos beysin fyrir og þó að það kunni að hjálpa honum til skamms tíma að fá einhvern svona Posh og Becks fjölmiðlastorm í gang, þá held ég að þetta skemmi fyrir honum til lengri tíma litið.

Fjölmiðlaneytendur eru þrátt fyrir allt ekki eins heimskir og umboðsmenn og fjölmiðlaráðgjafar gjarnan halda.


Tryggið ykkur eigið nafn á Facebook

Ég var rétt í þessu að velja mér slóð fyrir Facebook síðuna mína.

En þessi vinsæli samfélagsvefur opnaði fyrir það í fyrrinótt að notendur geti sjálfir valið sér nafn þar, eins og keppinautarnir Twitter og Myspace hafa leyft frá upphafi.



---

Ég á mér nokkra alnafna, en enginn þeirra virðist vera búinn að átta sig á þessari nýbreytni, því ég gat valið úr útfærslum á eigin nafni á Facebook.

Facebook.com/andresjonsson var laust og Facebook.com/andres.jonsson er líka enn á lausu.

Hins vegar var Facebook.com/andres farið. Einhver léttgeggjaður Kanadamaður var búinn að sölsa það undir sig.

Ætli hann hafi ekki beðið í netbiðröðinni eftir að nafnavalið opnaði.

Ég ákvað hins vegar að vera ekki með fullt nafn mitt sem slóð á heimasvæði mitt á Facebook heldur að nota sömu samsetningu og ég nota á flestum öðrum samfélagsvefum (Twitter, Qik o.fl.) og velja Facebook.com/andresjons.

---

Val mitt er hugsanlega óbeint undir áhrifum af gestafyrirlestri um leitarvélarbestun sem fluttur var á vefnámskeiðinu sem við héldum um daginn.

Þegar margir bera saman nafn, er sérstaða og að skapa eigið vörumerki á netinu, afar mikilvægt. Skilar þér oftar í leitarniðustöður á Google.

Eða að minnsta kosti gerir það lífið bærilegra fyrir vini og kunningja að hafa uppi á þér á netinu.

Hvet alla sem lesa þetta til að drífa sig og tryggja sér eigið nafn hjá Facebook.

Rúv 2.0

ruv-gva

Akkúrat núna er ég að leggja af stað upp í Efstaleiti þar sem að Almannatengslafélag Íslands hyggst heimsækja nýja sameinaða fréttastofu Rúv.

Rifjast þá enn upp fyrir mér hversu hægfara þessi fyrrum vinnustaður minn er og hve lengi hann er sérstaklega að bregðast við breytingum í umhverfinu.

---

Framfarir og þróun í samfélagsmiðlun virðist t.d. hafa farið að mestu framhjá Ríkisútvarpinu, en það kristallast ekki síst í bloggbanninu sem þeir lögðu á starfsmenn stofnunarinnar fyrir nokkrum árum.

Vitlausari ákvörðun hefði eiginlega ekki verið hægt að taka hjá fjölmiðlastofnun.

---

Þó má segja að tónlistardeildin á Rás 2 hafi aðeins verið að lifna við í social-media málum og sjálf fréttastofan aflétti bloggbanninu tímabundið í nokkrar vikur fyrir nýafstaðnar kosningar og blogguðu þá reyndir fréttamenn nokkrar færslur inn á rúv.is.

Lykilorðið hér er „tímabundið“. Það er enn eitt ruglið. Samfélagsmiðlun snýst einmitt um að byggja upp lestur og traust yfir lengri tíma.

Það eru aðilar eins og Rúv sem skilja ekki vefsamfélagið, sem vilja gera allt í þessum málum á sínum eigin forsendum.

Web 2.0 eins og það er kallað, snýst einmitt um að hlutirnir eru gerðir á forsendum vefsamfélagsins. Að virða og taka þátt í því samtali sem þar á sér stað á jafnréttisgrundvelli og nýta þau tól og þann vettvang þar sem notendurnir eru.

---

Bannið við bloggi starfsmanna, sem lagt var á fyrir nokkrum árum, tefur bara fyrir því að stofnunin aðlagist breyttu fjölmiðlaumhverfi.

Þar glatast mörg tækifæri til kynningar á því efni sem stofnunin framleiðir.

Tilgangurinn með banninu, að hindra að starfsmenn eyði tíma og orku í annað en vinnu sína hjá Rúv, eru algjörir smámunir í samanburði við ýmis konar annan hag sem stofnunin gæti haft af því ef starfsmennirnir væru virkari í samfélagsmiðlun.


Ég vona að mér verði hleypt inn í hús, þrátt fyrir þessar skoðanir mínar :)

Flottur bíll

Vorum að vísitera viðskiptavini í dag.

Heimsóttum meðal annars einn af okkar nýjustu kúnnum.

Það eru duglegir strákar sem neyðin hefur kennt að spinna. Þeir lenda nú í því að "þurfa" að stofna sinn eigin atvinnurekstur og byggja upp frá grunni, af því að fyrirtækið sem þeir störfuðu hjá bognaði undan skuldum.

bjarki og herdis skoða nýjar lyftur

Það verða fleiri sem eiga eftir að feta þessa sömu slóð á næstunni. Þannig endurnýjast atvinnulífið vonandi og verður heilbrigt á ný.

Það eru sem betur fer góðir hlutir að gerast víða.

---

Herdís dróst að þessari klassakerru sem lagt var innarlega í húsnæði fyrirtækisins.

Le Mans

Fallegar báðar tvær.


Mjög góð auglýsing

Þetta er frábær auglýsing frá Heineken. Sýnir samfélagsábyrgð um leið og hún styrkir vörumerkið.

 


Best geymda leyndarmál ljósvakans?

Það er sorglegt að horfa upp á það hvað þetta blogg er orðið óskaplega leiðinlegt hjá mér.

Held að við verðum að gera eitthvað í því, ekki seinna en strax!

---

Nú verður semsagt slegið í og fögur fyrirheit gefin um að lífgað verði upp á þetta moggablogg - sem ég stofnaði að mig minnir árið 2006.

Það var semsagt þá sem ég ákvað að nefna fyrirtæki mitt í almannatengslum, nafni sem væri eins lýsandi og hægt væri um þann ábata sem það veitir.

God samskipti front office

---


Það er ágætt að byrja á jákvæðu nótunum og deila út ýmsu verðskulduðu hrósi.

Í mars hóf störf á Rás 2, listamaðurinn, músíkantinn og fjölmiðlungurinn Vilhelm Anton Jónsson - betur þekktur sem Villi Naglbítur.

villi naglbíturEndurkoma hans á öldur ljósvakans hefur ekki farið neitt sérlega hátt, og má segja að sunnudagsþáttur Villa sé eitt best geymda leyndarmál Ríkisútvarpsins.

Þeir sem hafa stillt lengur á Rás 2 en í nokkrar mínútur einhvern undanfarin sunnudag hafa meðal annars notið frábærs lagavals, þar sem tónlistarstefnum ægir saman, en engin lög eru vond. Einnig hafa þeir hlýtt á áhugaverð viðtöl, vel orðaðar kynningar og glímt við skemmtilegar stærðfræðiþrautir, Þrennuna-þakrennuna og annað álíka úr smiðju sérvitringsins Villa.

Hann er líka með svo skemmtilegt orðfæri. Góður íslenskumaður.

---

Auglýsingarnar frá Ölgerðinni fyrir Orkuna
eru einnig verðugar þess að fá hrós.

Þær uppfylla skilyrðið um að vera nógu óvenjulegar til að maður taki nær ávallt eftir þeim þegar þær birtast á skjánum.

Að vísu kviknar strax með manni grunur um að þær eigi sér erlenda fyrirmynd, eða að minnsta kosti innblástur. En hvað með það!

---

Ég er líka ánægður með keppinaut Ölgerðarinnar, Vífilfell (viðskiptavinur Góðra samskipta), sem hlustaði á grasrótina á blogginu og á Facebook og kom aftur á markað með Fanta Lemon.



Þetta virðist líka hafa verið algjörlega rétt ákvörðun hjá þeim, því mér skilst að fyrsta framleiðsla af gosinu hafi selst upp fyrir helgi.

Ég man að maður gat ekki drukkið þetta gos á sunnudögum eftir djamm. Því það var ekkert vinsælla bland í sterkt áfengi, og bragðið minnti mann á það óþyrmilega.


Áhugavert málþing á morgun

Ég verð meðal fyrirlesara á málþingi sem Útflutningsráð ásamt fleiri samtökum standa að í Salnum í fyrramálið.

Það kostar ekkert að sækja þetta, en skráning og nánari upplýsingar um dagskrá málþingsins eru á vef Útflutningsráðs, www.utflutningsrad.is

ahugavert_malthing.jpg

Væri gaman að sjá sem flesta þarna. Þetta er efni sem margir hafa skoðun á.


Útlendingar þurfa að heyra góðu fréttirnar af Íslandi

Ný stjórn Almannatengslafélagsins hélt sinn fyrsta fund í gær í Hafnarfirði.

Meðal þess sem við ræddum var frammistaða íslenskra stjórnvalda í almannatengslum í Bretlandi, en um fátt var meira rætt hérlendis í gær en rangfærslur Gordons Brown í breska þinginu.

logo AÍ

Almannatengslafélagið var beðið um tillögur um viðbrögð í kjölfar bankahrunsins í haust og skilaði starfshópur félagsins þeim tillögum til Utanríkisráðuneytisins 18. október síðastliðinn. Þær má einnig lesa á vef félagsins: almannatengsl.is

Nýja stjórnin taldi rétt í ljósi atburða gærdagsins að hnykkja á því að farið verði að tillögum félagsins og sendi frá sér ályktun sem birtist í fjölmiðlum í dag.

---

Sjálfum þótti mér það nokkuð lýsandi fyrir skilningsleysi stjórnvalda á eðli almannatengsla þegar að aðalsamningamaður þjóðarinnar vegna Icesave skuldbindingana lýsti yfir litlum sigri í ímyndarbaráttu Íslands nýverið.

252622_63_preview

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef hundruðir fjölmiðla flytja neikvæðar fréttir af sviðinni jörð eftir lánastarfsemi Íslendinga og svo birtist ein lítil frétt í Sunday Times, sem segir að innistæðueigendur í Heritable banka Landsbankans fái 70% af tapi sínu bætt, þá er ekki öruggt að það "bæti orðspor Íslendinga í Bretlandi" svo neinu nemi, eins og Svavar Gestsson lét þó hafa eftir sér í íslenskum fjölmiðlum.

---

Hins vegar er rétt hjá honum, að jákvæðar staðreyndir eins og þessa, mætti nota í skipulagðri endurreisnarherferð fyrir ímynd Íslands í útlöndum.

EF... það væri eitthvað af því taginu væri í gangi.

En svo virðist ekki vera.

Auðvitað ætti eitthvert samræmingarbatteríi í PR-málum þjóðarinnar (sem þarf að stofna) að senda þessa frétt út til nokkurra öflugra PR-fyrirtækja sem við höfum fengið í okkar þjónustu í a.m.k. 10 löndum og tryggja með því að hver einasti blaðamaður sem skrifað hefur um hrunið á Íslandi, viti af því að afleiðingarnar fyrir erlenda sparifjáreigendur séu e.t.v. minni en talið var.

Já... og að Íslendingar standi sig vel í að rannsaka bankahrunið, að þeir séu á fullu að byggja upp nýja atvinnuvegi sem komið geti í staðinn fyrir misheppnaðan fjármálaiðnað og hyggist hindra að slíkar ófarir geti nokkurn tíma endurtekið sig.

Allar jákvæðar fréttir sem gætu vakið áhuga þessara fjölmiðla.

---

Þetta verður bara gert með einum hætti - skipulega og af fagmönnum.


Málvilla eða eðlileg þróun tungumálsins?

eldsmidjan

 

Ég hefði ekki þorað, þegar ég vann við að skrifa auglýsingatexta, að nota orðið "verð" í fleirtölu.

Þetta er algeng málvilla, en mér var kennt að það væri höfuðsynd í auglýsingagerð að láta undan þeirri freistingu að nota vísvitandi málvillur í texta.

---

Ég hef hins vegar ekki séð eða heyrt neinn gera athugasemdir við það, þó að þessi auglýsing hafi glumið í útvarpinu allan mánuðinn:

"Tíu ára gömul verð á Eldsmiðjunni í mars"

Kannski er þetta bara eitt dæmið enn um að tungumálið sé að þróast. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband