Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þingmaður í almannatengsl

Þetta er áhugaverð þróun.

Pressan skýrir frá því að Illugi Gunnarsson, sem er í leyfi frá þingstörfum, starfi nú í hlutastarfi sem almannatengill. Hann starfi sjálfstætt en sé í samstarfi við KOM (Kynning og markaður).

illugi_gunnars.jpg

---

Þetta er áhugaverð frétt fyrir okkur sem störfum í PR-bransanum.

Ég man ekki eftir neinum öðrum dæmum um að þingmenn hafi farið út í almannatengsl á Íslandi. En ég kannast hins vegar við að þetta sé nokkuð algengt á Norðurlöndunum og í Bretlandi.

Eitt helsta átrúnaðargoð mitt í stjórnmálum í gegnum tíðina, Göran Persson fyrrv. forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur t.d. undanfarið starfað sem ráðgjafi hjá PR-fyrirtæki í Stokkhólmi.

G%C3%B6ran%20Persson%20%C3%A4r%20m%C3%A4ktigast%20inom%20pr

Enda er þetta ekki ólógískur starfsvettvangur fyrir uppgjafar-stjórnmálamenn ef viðkomandi hefur á annað borð réttu skapgerðina til að starfa sem almannatengill. 

Það eru mikið til sömu eiginleikarnir sem þarf til að ná árangri í báðum þessum störfum.

Lítum á þá helstu:

  1. Góð almenn þekking á íslensku þjóðfélagi
  2. Góð íslenskukunnátta. Bæði í töluðu og rituðu máli.
  3. Hafa gaman af fólki. Eiga að auðvelt með að tengjast öðrum.
  4. Góður skilningur á því hvernig fjölmiðlar fúnkera
  5. Stórt tengslanet
  6. Sannfæringarkraftur og gott siðferði

---

Það væri óvitlaust ef fleiri fyrrum stjórnmálamenn kæmu inn á vettvang almannatengsla og skyldra starfa þegar að þeir hætta í stjórnmálum.

Þá þarf kannski sjaldnar að "redda" þeim vinnu sem sendiherrar eða forstöðumenn ríkisstofnanna eins og hefur verið svo algengt hér á landi.

Mig grunar samt að Illugi sjái stjórnmálin sem sinn framtíðarvettvang frekar en almannatengslin.


Forvitnilegt auglýsingaskilti

Smellið tvisvar á myndina til að stækka hana.

 hvalaskodun.jpg

Tók þessa mynd á símann minn í Austurstræti í gærmorgun.

Náttúruverndarsamtökin Nammco fara hér aldeilis óhefðbundnar leiðir við að ná til íslenskra kjósenda.


Kasper stóð fyrir Podio-partýi

kasper.jpg


Leit við í vinnustofu/kynningu/bjórpartý sem fram fór fyrr í kvöld á vegum Clara og Innovit í húsnæði Clara á 2. hæð í Kjörgarði.

Þarna voru mættir u.þ.b. 50-60 manns úr íslenska frumkvöðlasamfélaginu til að hlýða á Danann Kasper Hulthin kynna Podio (hér er Kasper á Twitter).

Gunnar Hólmsteinn, frkvstj. Clara kynnti svo aðeins (mynd @valurthor) hvernig þeir hafa verið að nota Podio.

Podio er hópvinnuhugbúnaður sem inniheldur allar helstu funksjónir sem kaffidrekkandi, hugmyndaríkt, "viðskrifborðvinnandi" fólk þarf á að halda í daglegum störfum sínum.

clara.jpg

Podio er ekki svo ólíkt 37 signals sem er fyrirtæki sem ég veit að  margir Íslendingar þekkja. En Góð samskipti borga þeim félögum Jason Fried og David Heinemeier Hansson $100 í áskrift á mánuði fyrir forritin Highrise og Basecamp.

Munurinn á Podio og þessum forritum er sá að Podio gefur manni kost á að hanna/aðlaga það að manns eigin þörfum, nokkuð sem maður hefur ósjaldan óskað sér að maður gæti gert með Highrise.

Meðal þeirra íslensku fyrirtækja sem virðast vera byrjuð að nota Podio eru auk Clara og Innvovit, Meniga, Datamarket og Norvik (a.m.k einn).

---

Ég ætla að prófa mig áfram með Podio á næstunni. Kannski ég geti látið forritið taka við hlutverki excel-skjals sem ég nota í dag til að halda utan um verkefni dagsins hjá Góðum samskiptum.

Þurfti síðan reyndar að fara snemma úr partýinu.

En það er gaman hvað það er mikið á seyði í íslenska frumkvöðlasamfélaginu og hversu mikil áhersla er lögð á að deila þekkingu með hvort öðru.


Blaðamaður gagnrýnir almannatengsl banka

Ívar Páll Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum.

Í dag birtir hann pistil þar sem Landsbankinn fær að heyra það fyrir það sem Ívar Páll telur vafasöm almannatengsl.

Segir hann meðal annars:

Sem viðskiptablaðamaður fyrir hrun fann maður að mottóið hjá mörgum var að segja ósatt ef þeir teldu sig geta komist upp með það. Er sú regla enn í gildi?

Hér má lesa yfirlýsingu bankans sem var tilefni þessara harðorðuðu skrifa Ívars.

 ivar_pall_um_almannatengsl_li.jpg

Grein Ívars

Morgunblaðið birti merka frétt á forsíðu síðasta föstudagsblaðs. Hún var um að fulltrúar nýja Landsbankans hefðu komið á fund skilanefndar gamla bankans og varað við því að hætta væri á að greiðsluflæði gjaldeyris inn í nýja bankann stæði ekki fyllilega undir afborgunum af skuldabréfi til þess gamla. Skuldabréfið, sem er í erlendri mynt, gaf nýi bankinn út til að greiða fyrir eignir sem fluttar voru í hann úr þrotabúi þess gamla.

Svo vill til að skuldabréf þetta er u.þ.b. fjórðungur eigna gamla bankans - eignanna sem ganga upp í svokallaða Icesave-skuldbindingu. Þessar upplýsingar hljóta því að hafa mikið að segja í umræðunni um það hvort ríkið eigi að ábyrgjast þá skuldbindingu, burtséð frá þeirri staðreynd að því ber engin lagaleg skylda til þess. Ef nýi bankinn stendur ekki fyllilega undir skuldbindingunni verður hann að sækja gjaldeyri í Seðlabankann og þannig versnar erlend staða seðlabankans sem því nemur.Viðbrögð nýja Landsbankans við fréttinni voru með miklum ólíkindum. Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu, sem einkenndist af skætingi og yfirlæti í garð Morgunblaðsins. Engu var svarað, staðhæft að fréttin væri »stormur í vatnsglasi« og þjónaði »einhverjum tilgangi öðrum en að upplýsa lesendur«. Morgunblaðið oftúlkaði »að hætti hússins« og að »óskandi væri að Morgunblaðið sýndi lesendum sínum þá kurteisi að grafast fyrir um staðreyndir og birta það sem sannast er«.

Daginn eftir birti Morgunblaðið aðra forsíðufrétt, þar sem birtar voru upplýsingar upp úr bréfi, sem gamli bankinn hafði sent þeim nýja og bankasýslunni, með tillögum um það hvernig vinna mætti úr stöðunni. Þar kom fram að nýi bankinn teldi sig vanta allt að 53 milljörðum króna til að standa undir greiðslum af skuldabréfinu. Bréfið var sent eftir þau samskipti nýja og gamla bankans sem Morgunblaðið hafði greint frá daginn áður.

Í stuttu máli sagt kom í ljós að allt hafði verið hárrétt í frétt blaðsins af málinu. Það er þess vegna athyglisvert, að forsvarsmenn Landsbankans skuli hafa séð sig knúna til þess að senda frá sér yfirlýsingu með þvílíkum gífuryrðum sem raun bar vitni. Væntanlega hafa þeir gert það í þeirri fullvissu að sannleikurinn væri vel grafinn og að Morgunblaðið hefði ekki tök á því að grafast frekar fyrir um málið.Þetta er auðvitað háalvarlegt mál. Í fyrsta lagi sýnir það, að til beggja vona getur brugðið í útreikningum á endurheimtum vegna himinhárrar erlendrar skuldar sem stjórnmálamenn vilja að skattgreiðendur ábyrgist. Í öðru lagi sýnir það, að ekki er allt sem sýnist í opinberum tölum um erlenda stöðu seðlabanka og ríkis. Í þriðja lagi sýnir það hugarfar þeirra sem ráða ríkjum hjá hinu opinbera og stofnunum þess. Sem viðskiptablaðamaður fyrir hrun fann maður að mottóið hjá mörgum var að segja ósatt ef þeir teldu sig geta komist upp með það. Er sú regla enn í gildi?


Gefðu alvöru hjarta á Valentínusardaginn

Norðmenn voru sniðugir í dag og notuðu þennan ameríska dag elskenda, Valentínusardaginn, til að vekja athygli á þörfinni fyrir líffæragjafa.

Það var herferð í gangi á Twitter og Facebook til að fá fólk til að fylla út svona líffæragjafakort, prenta það beint út af netinu og ganga með í veskinu.

liffaeragjafi.jpg

Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrv. alþingismaður, var á sínum tíma með þingsályktunartillögu sem fékkst ekki afgreidd á Alþingi um að það ætti að vera valmöguleiki á íslenskum ökuskirteinum til að taka fram hvort maður sé tilbúinn að gefa líffæri sín til að bjarga eða bæta líf annarra.

Ég var og er sammála honum. 


Ef Þóroddsstaðir væru í New York

Þá myndu þeir líta nokkurn veginn svona út...

Húsið sem Google var að kaupa fyrir jafnvirði 212 milljarða íslenska króna.

111eighthave

Fyrir okkur eru Þóroddsstaðir samt alveg nógu stórir.


Airwaves flytur á Þóroddsstaði

Skrifstofa Iceland Airwaves (sem verður stærri tónlistarhátíð með hverju árinu) hefur flutt höfuðstöðvar sínar utan af Granda og í okkar ástkæra hús í Skógarhlíð.

airwaves_a_thoroddsstadi_1047536.jpg

Grímur Atlason, Egill Tómasson og Róbert Aron Magnússon. Er þá orðinn ansi góður bræðingur af skapandi plöggerum, hönnuðum og markaðsgúrúum hér í burstabænum góða.

Það verður aldeilis gaman að halda garðpartý hér hjá okkur næsta vor og vonandi off-venue tónleika í tengslum við Airwaves næsta haust.


Nálægð við Guð = kaffi

Rakst aftur á þessa skjámynd af iPhone-inum hans Palla H.

andres_a_foursquare.jpg

 Foursquare lætur ekki að sér hæða. Skynjar þegar Guðsmenn eru á ferðinni og býður þeim til mín í kaffi.

Þeir sem ekki þekkja staðsetningartengda félagsmiðla ná þessu varla.


Viðskiptablaðið flytur

Viðskiptablaðið hefur flutt ritstjórnarskrifstofur sínar nokkrum sinnum á undanförnum árum.

Blaðið var á Mýrargötu, fór þaðan upp í Hlíðarsmára og síðan aftur vestur í bæ, út á Granda á Fiskislóð.

En nú hefur blaðið komist í það sem búist er við að verði framtíðarhúsnæði þess, á 2. hæð í Nóatúni 17.

vidskiptabladid_flytur_1047205.jpg

Þetta er sögufrægur verslunar- og skrifstofukjarni sem nýbúið er að gera upp. Að sögn starfsmanna fer mjög vel um blaðið þarna.

-----

Annar fjölmiðill, Útvarp Saga, er svo í hinum enda hússins. Það er spurning hvort þetta sé vísir að nýjum "fjölmiðla-klasa" í Nóatúninu?

 


Steve Martin lærir á Twitter

Steve Martin, grínleikarinn góðkunni, skráði sig á Twitter í haust. Hann var síðan gestur hjá netútvarpsmanninum Leo Laporte nýlega og lærði þá enn meira um það hvernig á að nota þetta samskiptatól.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 266009

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband