Ný stjórn Almannatengslafélagsins hélt sinn fyrsta fund í gær í Hafnarfirði.
Meðal þess sem við ræddum var frammistaða íslenskra stjórnvalda í almannatengslum í Bretlandi, en um fátt var meira rætt hérlendis í gær en rangfærslur Gordons Brown í breska þinginu.
Almannatengslafélagið var beðið um tillögur um viðbrögð í kjölfar bankahrunsins í haust og skilaði starfshópur félagsins þeim tillögum til Utanríkisráðuneytisins 18. október síðastliðinn. Þær má einnig lesa á vef félagsins: almannatengsl.is
Nýja stjórnin taldi rétt í ljósi atburða gærdagsins að hnykkja á því að farið verði að tillögum félagsins og sendi frá sér ályktun sem birtist í fjölmiðlum í dag.
---
Sjálfum þótti mér það nokkuð lýsandi fyrir skilningsleysi stjórnvalda á eðli almannatengsla þegar að aðalsamningamaður þjóðarinnar vegna Icesave skuldbindingana lýsti yfir litlum sigri í ímyndarbaráttu Íslands nýverið.
Ef hundruðir fjölmiðla flytja neikvæðar fréttir af sviðinni jörð eftir lánastarfsemi Íslendinga og svo birtist ein lítil frétt í Sunday Times, sem segir að innistæðueigendur í Heritable banka Landsbankans fái 70% af tapi sínu bætt, þá er ekki öruggt að það "bæti orðspor Íslendinga í Bretlandi" svo neinu nemi, eins og Svavar Gestsson lét þó hafa eftir sér í íslenskum fjölmiðlum.
---
Hins vegar er rétt hjá honum, að jákvæðar staðreyndir eins og þessa, mætti nota í skipulagðri endurreisnarherferð fyrir ímynd Íslands í útlöndum.
EF... það væri eitthvað af því taginu væri í gangi.
En svo virðist ekki vera.
Auðvitað ætti eitthvert samræmingarbatteríi í PR-málum þjóðarinnar (sem þarf að stofna) að senda þessa frétt út til nokkurra öflugra PR-fyrirtækja sem við höfum fengið í okkar þjónustu í a.m.k. 10 löndum og tryggja með því að hver einasti blaðamaður sem skrifað hefur um hrunið á Íslandi, viti af því að afleiðingarnar fyrir erlenda sparifjáreigendur séu e.t.v. minni en talið var.
Já... og að Íslendingar standi sig vel í að rannsaka bankahrunið, að þeir séu á fullu að byggja upp nýja atvinnuvegi sem komið geti í staðinn fyrir misheppnaðan fjármálaiðnað og hyggist hindra að slíkar ófarir geti nokkurn tíma endurtekið sig.
Allar jákvæðar fréttir sem gætu vakið áhuga þessara fjölmiðla.
---
Þetta verður bara gert með einum hætti - skipulega og af fagmönnum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.