21.4.2007
"Víkverji" fyrsti nafnlausi bloggarinn?
Það er ágætt framtak hjá Mogganum að birta nafnlaus leiðara- og staksteinaskrif sín hérna á blogginu (reyndar er blaðið í dag, laugardag, ekki komið inn ennþá).
Þarna vantar hins vegar enn gárunginn og gremjuboltann Víkverja sem allir lesendur Morgunblaðsins þekkja.
Segja má að þar sé skarð fyrir skildi því sjálfsagt myndu margir vilja leggja orð í belg á nafnlausri bloggsíðu Víkverja (zetu-notkun og kommusetning Víkverja dagsins bendir reyndar til þess að þar haldi á penna sami maður og almennt er talinn höfundur mestallra nafnlausra skrifa í Morgunblaðið. Ég kýs að svo stöddu að kalla hann aðeins "ónefnda manninn").
En semsagt...
Víkverji dagsins eyðir pistli sínum í að dásama N1-auglýsingarherferðina. Hefur hann uppi stór orð um hversu mikil tímamót herferð þessi marki. Hér að neðan má lesa smá brot úr þessum skrifum:
Víkverji 21.04.07:
Auglýsingar N1 hafa vakið mikla athygli. Þær eru óvenjulegar og eru til marks um mikla hugmyndaauðgi og sköpunarkraft.
En sennilega hafa þeir, sem hafa skapað þessa auglýsingaherferð N1, lagt drög að nýjum tímum í markaðsmálum fyrirtækja á Íslandi.
Líklegt má telja, að þessi auglýsingaherferð verði viðmið, sem margir munu bera sig saman við á næstu árum.
Hvað það er, sem er svona stórbrotið við þessa markaðsherferð, finnst mér ekki liggja í augum uppi og Víkverji rökstyður það ekki svo heitið geti í pistli sínum. Nema honum finnist nafnabreyting í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar vera svona hrikalega frumleg aðgerð.
Sjónvarpauglýsingin fyrir N1 er svo sem ágæt fyrir sinn hatt en hún er nákvæmlega ekkert frumleg. Má í raun segja að hún sé bara nákvæmlega eins og margar aðrar dýrar sjónvarpsauglýsingar sem íslensk stórfyrirtæki hafa látið framleiða undanfarin ár: Sýnt er svipsterkt fólk í mismunandi starfstéttum og aðstæðum í ólíkum slowmotion myndskeiðum sem tengd eru saman með peppmúsík og einhverju lita eða hreyfingarþema. Ekki frumlegt en ekkert leiðinlegt heldur.
Kitl-herferðin hjá Esso/N1, sem m.a. fólst í daglegri niðurtalningu á strætóskýlum, missti hins vegar að mínu mati algjörlega marks þar sem að allir vissu að það væri að koma nýtt nafn á fyrirtækið um leið og RÚV skýrði frá því nokkrum dögum áður.
Því kveikti það litla forvitni hjá manni þó að her manna væri í því að endurveggfóðra strætóskýli borgarinnar daglega um nokkurra daga skeið. Maður vissi hvað væri að koma. Reyndar var í útvarpsfréttum talað um Naust en á endanum var það N1 (geisp).
Við þetta er svo að bæta að Víkverji er náttúrulega hinn upprunalegi nafnlausi bloggari og það er óneitanlega skrýtið að þeir sem mest hafa fárast yfir nafnlausum bloggurum undanfarið skuli hafa þolað skrif hans öll þessi ár. En þyrfti ekki annars að fara í það að smíða bloggsíðu fyrir kappann eða þá bara að birta hann á netinu með hinum nafnlausu skoðunum Morgunblaðsins?
Kannski ónefndi maðurinn geti svarað því í athugasemdakerfinu mínu...
AJ.
Flokkur: Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 266116
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Snildar pælingar hjá þér. Herferðin er ömurleg, rendi að blogga um það. Víkverji fyrsti nafnlausi perrinn.
Tómas Þóroddsson, 21.4.2007 kl. 23:13
Hvað er nafnlaus perri?
Ólafur Þórðarson, 22.4.2007 kl. 05:16
Víkverjapistillinn er einsdæmi á síðum Mogga.
Oflof er háð, - ekki satt?
Eiður Svanberg Guðnason, 22.4.2007 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.