Leita í fréttum mbl.is

Blaðamaður gagnrýnir almannatengsl banka

Ívar Páll Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum.

Í dag birtir hann pistil þar sem Landsbankinn fær að heyra það fyrir það sem Ívar Páll telur vafasöm almannatengsl.

Segir hann meðal annars:

Sem viðskiptablaðamaður fyrir hrun fann maður að mottóið hjá mörgum var að segja ósatt ef þeir teldu sig geta komist upp með það. Er sú regla enn í gildi?

Hér má lesa yfirlýsingu bankans sem var tilefni þessara harðorðuðu skrifa Ívars.

 ivar_pall_um_almannatengsl_li.jpg

Grein Ívars

Morgunblaðið birti merka frétt á forsíðu síðasta föstudagsblaðs. Hún var um að fulltrúar nýja Landsbankans hefðu komið á fund skilanefndar gamla bankans og varað við því að hætta væri á að greiðsluflæði gjaldeyris inn í nýja bankann stæði ekki fyllilega undir afborgunum af skuldabréfi til þess gamla. Skuldabréfið, sem er í erlendri mynt, gaf nýi bankinn út til að greiða fyrir eignir sem fluttar voru í hann úr þrotabúi þess gamla.

Svo vill til að skuldabréf þetta er u.þ.b. fjórðungur eigna gamla bankans - eignanna sem ganga upp í svokallaða Icesave-skuldbindingu. Þessar upplýsingar hljóta því að hafa mikið að segja í umræðunni um það hvort ríkið eigi að ábyrgjast þá skuldbindingu, burtséð frá þeirri staðreynd að því ber engin lagaleg skylda til þess. Ef nýi bankinn stendur ekki fyllilega undir skuldbindingunni verður hann að sækja gjaldeyri í Seðlabankann og þannig versnar erlend staða seðlabankans sem því nemur.Viðbrögð nýja Landsbankans við fréttinni voru með miklum ólíkindum. Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu, sem einkenndist af skætingi og yfirlæti í garð Morgunblaðsins. Engu var svarað, staðhæft að fréttin væri »stormur í vatnsglasi« og þjónaði »einhverjum tilgangi öðrum en að upplýsa lesendur«. Morgunblaðið oftúlkaði »að hætti hússins« og að »óskandi væri að Morgunblaðið sýndi lesendum sínum þá kurteisi að grafast fyrir um staðreyndir og birta það sem sannast er«.

Daginn eftir birti Morgunblaðið aðra forsíðufrétt, þar sem birtar voru upplýsingar upp úr bréfi, sem gamli bankinn hafði sent þeim nýja og bankasýslunni, með tillögum um það hvernig vinna mætti úr stöðunni. Þar kom fram að nýi bankinn teldi sig vanta allt að 53 milljörðum króna til að standa undir greiðslum af skuldabréfinu. Bréfið var sent eftir þau samskipti nýja og gamla bankans sem Morgunblaðið hafði greint frá daginn áður.

Í stuttu máli sagt kom í ljós að allt hafði verið hárrétt í frétt blaðsins af málinu. Það er þess vegna athyglisvert, að forsvarsmenn Landsbankans skuli hafa séð sig knúna til þess að senda frá sér yfirlýsingu með þvílíkum gífuryrðum sem raun bar vitni. Væntanlega hafa þeir gert það í þeirri fullvissu að sannleikurinn væri vel grafinn og að Morgunblaðið hefði ekki tök á því að grafast frekar fyrir um málið.Þetta er auðvitað háalvarlegt mál. Í fyrsta lagi sýnir það, að til beggja vona getur brugðið í útreikningum á endurheimtum vegna himinhárrar erlendrar skuldar sem stjórnmálamenn vilja að skattgreiðendur ábyrgist. Í öðru lagi sýnir það, að ekki er allt sem sýnist í opinberum tölum um erlenda stöðu seðlabanka og ríkis. Í þriðja lagi sýnir það hugarfar þeirra sem ráða ríkjum hjá hinu opinbera og stofnunum þess. Sem viðskiptablaðamaður fyrir hrun fann maður að mottóið hjá mörgum var að segja ósatt ef þeir teldu sig geta komist upp með það. Er sú regla enn í gildi?


Athugasemdir

1 identicon

Ívar Páll ætti að þekkja vinnubrögðin, enda almannatengill Björgólfs Thor um tíma.

Arnar Páll (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 17:45

2 identicon

Rétt Arnar. En það gefur þessu kannski bara aukna vigt. Hann þekkir báðar hliðar.

Andrés (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 266009

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband