11.11.2013
Hagvöxtur á Íslandi í húfi í umspilinu?
Það er mikið í húfi fyrir íslensku landsliðsmennina sem mæta Króötum í tveimur umspilsleikjum nú eftir nokkra daga.
Hvenær mun Ísland eiga aftur eiga raunhæfa möguleika á að komast á heimsmeistaramót í knattspyrnu? Það er ekki líklegt að það tækifæri komi aftur í bráð.
---
En hvað gerist ef það fer nú á endanum svo að Ísland sigrar Króatíu?
Það verður allt vitlaust.
Áhugi landans á fótbolta mun rjúka upp. Heimsóknir á vefmiðla sem segja fréttir af íslensku landsliðsmönnunum munu stóraukast.
Sala á sjónvörpum, gasgrillum og öðru slíku mun stóraukast.
Grillkjöt, áfengi og fjölmargar aðrar neysluvörur munu rjúka út. Júní og júlí verða eins og tveir desember-mánuðir í verslun.
Fólk mun bjóða vinum og ættingjum heim til að horfa á leiki Íslands og um leið drífa sig í að innrétta baðherbergið sem hefur legið á hakanum, fjárfesta í nýju sófasetti og passa að allt líti sem best út fyrir gestina.
Verða mun vart við aukna bjartsýni landsmanna hvarvetna.
Samanlagt mætti skjóta á að hagvöxtur gæti orðið 1-2% meiri bara við þessa auknu innlendu eftirspurn.
Erlendum ferðamönnum fækkar reyndar á meðan HM stendur yfir en fleiri Íslendingar kjósa einnig að vera heima á meðan á keppninni stendur.
Athyglin sem Ísland fær fyrir að komast á HM gæti síðan haft mjög jákvæð áhrif á haustið í ferðaþjónustunni.
---
Í Bretlandi hafa hagfræðingar séð merkjanleg áhrif þess þegar enska landsliðið tekur þátt í lokakeppnum í fótbolta.
Það er því mikil ábyrgð á herðum íslenska landsliðsins. Ekki aðeins er í húfi tækifæri lífs þeirra sem knattspyrnumenn.
Heldur gætu úrslit næstu tveggja leikja ráðið því hvort eftirspurn í íslenska hagkerfinu taki við sér eða haldi áfram að dragast saman.
Það má segja að það verði tvíþætt skilaboð þegar við hrópum "Áfram Ísland" á föstudaginn. Sigur gæti nefnilega sannarlega ýtt Íslandi áfram á veg efnahagsbata.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2013
50% fækkun starfa á fjölmiðlum?
Það virðist áfram fjara undan tekjustraumum fjölmiðla.
Golfboltastöntið með Birgi Leifi Hafþórssyni til að auglýsa útsölu á golfvörum í Kringlunni hefur líklega kostað samtals 1-1,5 milljón króna.
Af því hefur lítið eða ekkert runnið til fjölmiðlanna sem birtu þetta.
Þessi upphæð hefði fyrir nokkrum árum runnið óskipt til birtingar útvarps- og skjáauglýsinga ásamt opnum eða heilsíðuauglýsingum í dagblöðum.
---
Manni finnst því líklegt að störfum á fjölmiðlum muni halda áfram að fækka.
Kannski verða þau ekki nema helmingur af því sem nú er eftir 5-10 ár?
Þó dreymir marga enn um að verða blaðamenn eða sjónvarpsfréttamenn.
---
AJ
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2013
Flakkað um Þóroddsstaði
Flakk er útvarpsþáttur á Rás 1 þar sem Lísa Pálsdóttir gengur um gömul hverfi borgarinnar og skoðar hús og götur og ræðir bæði við íbúa og arkitekta sem þekkja sögu þeirra.
Nýverið lá leið Lísu til okkar á Þóroddsstöðum í Skógarhlíð (þar sem skrifstofur Góðra samskipta eru til húsa).
Mjög áhugavert er að hlusta á allan þáttinn. En heimsóknin á Þóroddsstaði byrjar á 35. mínútu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2013
Geta konur stjórnað fyrirtækjum?
Auðvitað geta þær það.
Ég trúi ekki að nokkur sem hafi smellt á þessa fyrirsögn sé í nokkrum vafa um að konur geti stjórnað fyrirtækjum jafn vel og karlar.
En afhverju er svona sjaldgæft að þær geri það. Í samanburði við karla.
---
Skortur á fyrirmyndum er örugglega ein skýringin.
Á fimmtudaginn í hádeginu mun Margrét Guðmundsdóttir segja frá reynslu sinni í Háskóla Íslands í fyrirlestri sem hún kallar "Hvað ræður árangri íslenskra kvenstjórnenda?"
Ég kemst því miður ekki sjálfur.
En að mínu mati er Margrét er einn flottasti stjórnandi landsins og ég hvet fólk eindregið til að mæta og hlýða á hana.
---
Jafnfréttisumræðan þarf að komast upp úr hjólförunum.
Árangurinn við að jafna hlut kynjanna á síðustu 20 árum hefur orðið miklu minni en maður bjóst við.
Hvað veldur því að margar vel menntaðar og hæfar konur enda heimavinnandi eða í lægra starfshlutfalli í stað þess að setja starfsframann í forgang?
---
Möguleikar kvenna til frama innan viðskiptalífsins er viðfangsefni metsölubókarinnar Lean in eftir Sheryl Sandberg, rekstrarlegan framkvæmdastjóra Facebook.
Ég er reyndar ekki alveg búinn með bókina, en hún er mjög áhugaverð.
Í bókinni skrifar Sandberg um jafnréttismálin frá annarri hlið en maður er vanur.
Með því að líta til reynslu ömmu sinnar, móður og sinnar eigin reynir hún að greina hvað það er í nútíma konum og hvað það er í skipulagi fyrirtækja sem veldur því að konur verða mun síður æðstu stjórnendur.
Konur af kynslóð Sandberg eru jafn hæfar, jafn vel menntaðar og hafa fengið sömu hvatningu og tækifæri og karlar. Margar þeirra eru betur menntaðar en jafnaldrar sínir af hinu kyninu.
En samt eru karlar allsráðandi í viðskiptalífinu.
---
Bókin er góð lesning og opnar augu manns fyrir ýmsum hindrunum sem konur mæta á vinnumarkaði.
En Lean in inniheldur líka fjölmörg góð ráð sem allir geta tileinkað sér til að stýra eigin starfsframa.
AJ
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2012
Viðurkennd ósannindi?
Sem almannatengill og áhugamaður um opinber tjáskipti, þá hef ég stundum velt því fyrir mér hvers vegna sumt sem sagt er, og virðist augljóslega ósatt, fær að standa óáreitt í opinberri umræðu.
Hvort það séu ákveðin ósannindi sem teljist viðurkennd og njóti verndar eða að minnsta kosti skilnings fjölmiðla og almennings.
Tökum dæmi.
- Stjórnmálamaður svarar fjölmiðlum blákalt að engar viðræður við aðra flokka hafi farið fram. Síðar sama dag er tilkynnt um nýjan meirihluta.
- Formaður íþróttafélags segir þjálfara njóta fulls trausts. Daginn eftir er hann rekinn.
- Forstjóri fyrirtækis hættir störfum. Fyrirtækið sendir tilkynningu og segir ákvörðunina hafa verið hans eigin. Sjaldnast er það þó rétt lýsing á því sem gerðist.
Í öllum tilfellum má gera ráð fyrir að sá sem tjáði sig opinberlega vissi að hann var ekki að segja satt.
En aldrei verða þó neinir eftirmálar vegna þessa misræmis.
Er það vegna þess að allir vissu allan tímann að viðkomandi var að segja ósatt? Bæði blaðamaðurinn og almenningur?
Eru "viðurkennd ósannindi" kannski bara eðlilegur hluti af opinberri umræðu?
---
Nýjasta dæmið sem ég velti fyrir mér hvort flokka eigi með viðurkenndum ósannindum, eru fullyrðingar verjenda og sakborninga í hvítflibbamálum, bæði í greinargerðum til dómstóla og til fjölmiðla.
Trúir einhver því t.d. að Sigurður Einarsson hafi ekki verið viðriðinn ákvörðun um að lána allt kaupverð 5% hlutar í Kaupþingi sem seldur var olíufurstanum Al-Thani rétt fyrir hrun?
Er ekki staðreynd að Sigurður byggði upp og stýrði Kaupþingi sjálfur frá A-Ö í tæpan áratug þrátt fyrir að eiga aðeins lítinn hlut í bankanum. M.a. með því að láta valda menn kaupa í bankanum og lána þeim í staðinn í önnur verkefni (T.d. Exista). Það virðist blasa við að hann hafi farið með öll völd í Kaupþingi.
En hann segist nú "ekki haft heimild til slíkra ákvarðana".
Er kannski allt leyfilegt til að ná fram sýknu?
Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig. En það væri gott að vita hvernig þetta er. Hvernig lögmenn líta á þessar yfirlýsingar.
---
Það má líka spyrja hvort það sé hollt fyrir samfélagið að mistrúverðugar yfirlýsingar, sem fram koma í greinargerðum sakborninga, verði sjálfkrafa að fyrirsögnum fjölmiðla?
Oft er enginn fyrirvari gerður í fréttunum um að fullyrðingarnar séu í mótsögn við það sem áður hefur komið fram.
Í mesta lagi kemur önnur frétt þar sem vitnað er í saksóknara. En hann verður að gæta orða sinna mun betur samkvæmt hefðinni virðist vera.
Dropinn holar steininn og við verðum að standa vörð um stofnanir sem halda uppi lögum í landinu. Nógu veikburða eru þær nú samt.
Nógu margar fyrirsagnir um annarlegan tilgang og vanhæfni geta haft áhrif.
Baugsmálið er ágætis dæmi, jafnvel þó að fleiri hliðar hafi verið á því máli.
---
Önnur hlið er svo trúverðugleiki hinna ákærðu.
Er ekki óheppilegt fyrir nafntogaða menn að halda blákalt fram hlutum sem allt viti borið fólk veit að eru rangir?
Ekki síst á sama tíma og þeir eru að reyna að sannfæra dómstóla um eigin heiðarleika og löghlýðni?
Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá sjálfa, dómstóla og ekki síður okkur hin.
AJ
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2012
"Great minds think alike"
Þessar myndir af nýrri auglýsingu Icelandair og eldri auglýsingu Iceland Express hafa verið að fljúga manna á milli.
Ágætis dæmi um að ef einhver fær góða hugmynd þá er hann yfirleitt ekki fyrstur til þess.
En líklega er nokkuð sjaldgæft að þetta gerist hjá beinum samkeppnisaðilum - því varla vilja þeir vera eins...
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2012
Einföld hugmynd en skemmtileg
Þessi vefborði fyrirtækisins Póstdreifing grípur athyglina út af skemmtilegum texta.
Virðist vera syndsamleg játning, en sem á sér svo auðvitað eðlilegar skýringar.
Ein lífseigasta útgáfa landsins er Heimur, sem gefur út Frjálsa verslun, Iceland Review og fleiri blöð.
Fyrirtækið hefur gefið út tekjublað Frjálsrar verslunar í mörg ár og haft af því góðar tekjur í lausasölu og auglýsingum.
Fólk kaupir blaðið af forvitni og til að bera saman eigin tekjur við fólk í samskonar störfum.
Fyrir nokkrum árum tóku keppinautar Heims á fjölmiðlamarkaðnum þetta upp eftir þeim og fóru að fletta upp tekjum nafntogaðs fólks í álagningarskránni og birta.
Fyrst tímaritið Ísafold, því næst Mannlíf og DV og nú síðast bættist Vísir.is við.
---
En í ár hefur Heimur fundið leið til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum á markaðnum.
Útgáfufyrirtækið forselur þessa dagana tekjublað Frjálsrar verslunar í gegnum vefborða á netinu og lofar fólki að það fái blaðið heimsent sama dag og það kemur út.
Það er ekki á hverjum degi sem maður sér fyrirtæki, sem eru orðin þetta gömul í hettunni og setið hafa ein að sínum markaði, bregðast við aukinni samkeppni og laga sig að breyttum markaðsaðstæðum á þennan hátt.
Virkilega flott hjá þeim.
AJ
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2012
Skuggi vindsins
Sólin og vindurinn léku sér að skugganum af fánanum sem blaktir ofan á Þóroddsstöðum í dag.
Hér er verið að undirbúa mikla veislu í tilefni af fertugsafmæli eins af íbúunum, Harðar Harðarsonar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2012
Getur maður unnið skinnur?
Þetta er skemmtilegt. Af því þetta er óvænt.
En getur maður í alvöru unnið skinnur í þessum leik eða er þetta bara gott grín?
---
AJ
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar